Héraðsdómur í skatta- og bókhaldsmálum

4. fundur
Fimmtudaginn 06. október 1994, kl. 12:23:16 (98)


[12:23]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er ljóst að ef Framsfl. kemur til með að vera í næstu ríkisstjórn að afloknum kosningum mun hann stokka upp þetta snarvitlausa skattkerfi sem Sjálfstfl. hefur byggt hér upp, þar sem meðallaunamaðurinn í landinu þarf að greiða 70% í jaðarskatt. Af hverjum 100 kr. sem meðaltekjumaðurinn í landinu getur unnið sér inn þarf hann að greiða 70 kr. til hæstv. fjmrh. Friðriks Sophussonar, varaformanns Sjálfstfl., áður en hann fær eina einustu krónu sjálfur. ( IBA: Segðu fólkinu hvað þú ætlar að gera.) Framsfl. mun stokka þetta kerfi upp, það er ljóst, að afloknum kosningum fái hann tilstyrk. (Gripið fram í.) Það er útilokað að búa við það að vera með skattkerfi sem gerir ráð fyrir 70% jaðarskatti, þar sem hinn almenni launamaður þarf að greiða 70 kr. af hverjum 100 fyrst til fjmrh. áður en hann fær eina einustu krónu sjálfur. Hæstv. fyrrv. félmrh. stóð að þessum skattkerfisbreytingum öllum saman á launafólkið í landinu.