Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 16:06:01 (192)

[16:06]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að formaður fjárln. er að nálgast veruleikann. Hann er að byrja að viðurkenna að ríkisstjórnin skilur eftir sig meiri aukningu á skuldum hins opinbera, meiri aukningu á erlendum skuldum hins opinbera og meiri samanlagðan fjárlagahalla á kjörtímabilinu en nokkur önnur ríkisstjórn í sögu lýðveldisins. Svo geta menn talað um einhver kosningafjárlög 1991 sem Alþfl. greiddi atkvæði með og sótti hart í að fá öll þau atriði inni í því frv. sem þá var afgreitt. En engu að síður er það þannig að þótt allar hallatölur síðasta kjörtímabils séu teknar samanlagt ná þær ekki hallatölum þessa kjörtímabils. Það væri nær fyrir formann fjárln. að viðurkenna þá stórkostlegu skuldasúpu sem ríkisstjórnin skilur eftir sig sem er lýðveldismet í skuldaklafa sem nokkur ríkisstjórn hefur skilið eftir sig á Íslandi en að fimbulfamba í ræðu um það að þessi ríkisstjórn hafi ekki skilið eftir sig neinn fortíðarvanda handa framtíðinni að leysa.