Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 18:30:53 (221)


[18:30]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það eru svolitlir útúrsnúningar í þessu hjá hv. þm. Finni Ingólfssyni. Ég sagði aldrei að lánasjóðurinn væri þannig settur að hann munaði ekki mikið um að taka lán. Ég orðaði það ekki svoleiðis, það er töluverður blæbrigðamunur á því sem hv. þm. hafði eftir mér og því sem ég sagði. Ég sagði að staða sjóðsins væri þannig orðin eftir aðgerðir núv. ríkisstjórnar að hann kynni að þola það að taka meiri lán eitt árið heldur en hann ella hefði getað. Við sögðum heldur ekki þegar við vorum að breyta lögunum um lánasjóðinn að hann væri gjaldþrota. Við sögðum að það stefndi í gjaldþrot ef ekkert yrði að gert og á þessu er líka verulegur munur.