Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 20:38:47 (243)


[20:38]
     Finnur Ingólfsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Það kom fram við umræðuna fyrir kvöldmat að hæstv. fjmrh. var spurður ákveðinna spurninga úr kaflanum um lífeyristryggingar í fjárlagafrv. Hann gat engu svarað svo mark væri takandi á. Sömuleiðis var hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, formaður þingflokks Alþfl., spurð sömu spurninga og fengust engin svör sem skýra þau atriði sem snúa að þeim mikla niðurskurði upp á 850 millj. kr. í lífeyristryggingakafla frv.
    Nú veit ég ekki hvort heilbr.- og trmrh. er með fjarvistarleyfi eða hvort hann hefur tök á að koma hingað í þingsalinn en það er eðlilegt að óskað sé eftir því. Þar sem ég er næstur á mælendaskrá og ætlaði að fara örlítið í þann málaflokk í minni ræðu þá óska ég eindregið eftir því að hæstv. heilbr.- og trmrh. verði gert ljóst að hann þarf að vera viðstaddur þessa umræðu. Nú getur vel verið að hæstv. umhvrh. gegni fyrir heilbr.- og trmrh. Ef svo er þá kann vel að vera að hæstv. umhvrh. geti svarað þeim spurningum er að lífeyristryggingunum snúa. Það finnst mér vera það sem menn þurfa fyrst og fremst að fá svör við. Ef svo er ekki þá finnst mér mjög eðlilegt og tek undir það með hv. 8. þm. Reykn. að umræðunni verði frestað þar til ríkisstjórnin er svo mönnuð að hún geti svarað einföldum spurningum um fjárlagafrv. sem bornar eru fram af þingmönnum og menn þurfa að fá svör við. Það er eðlilegt að svo sé þar sem hæstv. fjmrh., sem ber jú ábyrgð á fjárlagafrv., er ekki fær um að svara þeim spurningum sem hér hafa komið fram.