Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 13:59:31 (264)


[13:59]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það sem var merkilegast við ræðu hæstv. fjmrh. er að hann er að undirstrika í þessari ræðu sinni að vextir á skammtímabréfum fara hækkandi enda var þetta varnarræða fyrir slíkum hlutum. Ef hæstv. fjmrh. les ágætt fréttaviðtal við Sigurð B. Stefánsson hagfræðing þá er það ekki nema lítið brot af þeim ástæðum eða ein lítil ástæða fyrir því að vextir eru núna að hækka á skammtímabréfum að verið sé að samræma þetta því sem er að gerast í nágrannalöndunum. Það er hins vegar þenslumerkin sem eru hér að verki og gera það að verkum að vextir hér fara nú hækkandi. Og það er staðreynd að Seðlabankinn treystir sér ekki lengur til að kaupa meira af þessum ríkistryggðu pappírum til þess að halda vöxtunum niðri fyrir ríkisstjórnina og það kemur að því bara sem menn héldu hér fram fyrir tæpu ári síðan eða sl. haust að þessar aðgerðir væru handaflsaðgerðir sem væru í engu sambandi við það sem væri að gerast á markaðnum og vextir færu þess vegna hækkandi og það er það sem er að gerast.