Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 16:21:04 (292)


[16:21]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. hefur greinilega mikinn áhuga á sagnfræði. Hæstv. fjmrh. virðist hafa áhuga á því að hér í þinginu sé farið sérstaklega yfir málflutning manna og verk á árunum 1988 til 1991. Ég er alveg tilbúinn til þess, hæstv. fjmrh., að gera það hér í vetur og flytja t.d. allar þær yfirlýsingar sem hv. þáv. þm. Friðrik Sophusson gaf um loforð um skattalækkanir. Hvernig þingmenn Sjálfstfl. lofuðu skattalækkunum hér í salnum, fluttu tillögur um það, fullkomlega óábyrgar tillögur. Gengu fram í kosningabaráttunni, lofuðu að afnema alla skattana sem þáv. ríkisstjórn lagði á, svöruðu því í prófkjöri Sjálfstfl., sem nú er að fara fram aftur í Reykjavík, í sérstöku blaði sem ungir sjálfstæðismenn gáfu út, allir nema hv. þm. Geir Haarde. ( IBA: Nei, ekki ég.) Og kannski Ingi Björn Albertsson, það getur vel verið, ég skal ekkert um það segja. En alveg var það ljóst að núv. forsrh. og fjmrh. lofuðu að leggja alla þessa skatta af.
    Það er því alveg velkomið, hæstv. fjmrh., ef Sjálfstfl. telur það þjóna hagsmunum sínum að taka hérna einhvern tíma í vetur í þessa sagnfræði. Ég er líka alveg tilbúinn að ræða viðskilnað ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, hvernig sólundað var á árunum 1986--1988 með botnlausum erlendum lántökum og hvers konar hagstjórn það var og hvaða erfiðleika hún skildi eftir sig. Ég ætla kannski að ræða það að nokkru leyti á eftir. En við leyndum aldrei kjaraskerðingunni sem var framkvæmd á þessum árum, hæstv. fjmrh. Þess vegna eru það engar fréttir að koma hér upp og þylja þessar tölur. Það var ekki nokkur maður að hylja þær og þær voru gerðar í fullu samþykki við Alþýðusambandið og BSRB.
    En mig langar hins vegar að spyrja hæstv. fjmrh. einnar spurningar: Vill hann ekki upplýsa þingið um breytingu á heildarafla á árunum 1991--1994 og breytingar á heildaraflaverðmæti íslenskra sjávarafurða á þessu sama tímabili, svo hann geti þó reitt fram hérna einhverjar marktækar tölur um breytingar á tekjum þjóðarbúsins af sjávarútvegi?