Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 16:23:43 (293)


[16:23]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að hv. þm. skuli koma hér í stólinn og tel hann mann að meiri og lýsa því yfir að það sé rétt sem kom fram í máli mínu, að kjaraskerðingin, kaupmáttarrýrnunin, varð miklu meiri á þeim árum sem hann sat í ríkisstjórn heldur en þegar núv. stjórn hefur setið. Þetta er mjög mikilvægt og mikilvægara vegna þess að hv. þm. hefur aftur og aftur í sínum málflutningi, bæði í vetur og í fyrravetur, haldið því fram að sú ríkisstjórn sem nú situr hafi stundað stórkostlegt kauprán og kjaraskerðingar. Þess vegna segi ég að þessi yfirlýsing hv. þm., jafnvel þó honum sé ekki vel við sagnfræðina, er kærkomin fyrir þá sem eru að bera saman tvær ríkisstjórnir. Og það er ekkert óeðlilegt að það sé gert á kosningavetri, því auðvitað þarf fólk að rifja það upp fyrir sér, hvernig var ríkisstjórnin sem sat hér á undan, ríkisstjórn hv. þingmanna Halldórs Ásgrímssonar og Ólafs Ragnars Grímssonar og hvernig hefur núv. ríkisstjórn starfað? Auðvitað þarf að rifja það upp, ekki síst þegar rætt er um kjaramál.