Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 21:19:32 (318)


[21:19]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fyrsta spurning mín til hæstv. fjmrh. var að óska eftir því að hann útskýrði hvort hann gæti fært einhver rök fyrir því að vextir ættu að lækka á næstu 6--9 mánuðum. Það var auðvitað athyglisvert að hæstv. fjmrh. sagði ekki eitt orð til að reyna að svara því. Það er ekki hægt að túlka á annan veg, eftir alla umræðuna sem orðið hefur í dag eftir yfirlýsingu ráðherrans í gærkvöldi, en þann að hann treysti sér ekki til að nefna eitt einasta atriði sem eigi að benda til vaxtalækkana á næstunni. Það er auðvitað mjög mikilvæg yfirlýsing að hæstv. fjmrh. útskýrir nauðsyn á vaxtahækkun í gærkvöldi, er spurður um það hér í kvöld hvort hann geti bent á eitt einasta atriði sem leiðir til vaxtalækkunar á næstu 6--9 mánuðum, fram á næsta vor og skilar auðu. Þar með blasir það við að fjmrh. íslenska lýðveldisins er afdráttarlaust þeirrar skoðunar að vextir muni fara hækkandi þvert ofan í yfirlýsingar forsrh. í stefnuræðunni og þvert ofan í meginforsendur þessa fjárlagafrv. Og ég er sammála hæstv. fjmrh. um það. Ég held nefnilega að fjmrh. þessarar ríkisstjórnar geti ekki bent á eitt einasta atriði og það sé ekki hægt að benda á eitt einasta atriði sem leiði til vaxtalækkunar.
    Varðandi lífeyrissjóðina, þá er ég þeirrar skoðunar, virðulegi fjmrh., sem mér er nú ekki unnt að útskýra hér í stuttu andsvari, að skattlagningin á fjármagnstekjunum eigi fyrst og fremst að vera á einstaklingana. Það sem eigi hins vegar að gera við lífeyrissjóðina er að breyta heimildum þeirra til þess að leggja fjármagn í atvinnulífið og taka jafnvel upp ákvæði um skylduframlag þeirra til þess að leggja fram fjármagn í atvinnulífið þannig að sú mikla fjármagnsuppspretta sem er á vettvangi lífeyrissjóðanna verði notuð að verulegu leyti til þess að veita kraft í atvinnulífsuppbyggingu hér á landi. Ég tel það skynsamlegri meðferð á fjármagni lífeyrissjóðanna hér á allra næstu árum heldur en að draga þá inn í skattlagningu fjármagnstekna.