Lyfjalög

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 10:50:20 (344)


[10:50]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hv. 1. flm. frv., sem hér er tekið til umræðu, að nauðsynlegt er að gera breytingar á lyfjalögunum hvað varðar sölu dýralækna á lyfjum. Það hefur komið fram að það er nauðsynlegt. Þegar lyfjafrumvarpið var til meðferðar í þinginu kom það fram, m.a. hjá fulltrúum heilbrrn. sem voru kallaðir til, að gert væri ráð fyrir óbreyttri framkvæmd á sölu lyfja á vegum dýralækna. Það hefur hins vegar komið í ljós og staðfest með bréfi ráðuneytisins að heilbr.- og trmrn. hefur hugsað sér að hafa aðra framkvæmd á þessu máli en gert var ráð fyrir. Þess vegna er nauðsynlegt að gera breytingu á lögunum til þess að það sé alveg skýrt og klárt að dýralæknum sé heimilt að selja lyf beint til bænda.
    Varðandi þetta frv. þá verð ég því miður að segja að ég tel það ekki fullnægjandi. Ég tel það gallað og þá aðallega tvennt. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að allir dýralæknar hafi heimild til lyfsölu. Ég tel að það komi ekki til greina heldur eigi einungis að miða við héraðsdýralækna og þá dýralækna sem hafa dýralækningar að aðalstarfi. Það að heimila öllum dýralæknum, heilbrigðisfulltrúum og öðrum að stunda lyfjasölu er ekki ásættanleg úrlausn og því tel ég að ekki sé hægt að fallast á það frv. sem hér liggur hvað það varðar.
    Í öðru lagi er nauðsynlegt að gera breytingu á 40. gr. laganna, sem varðar ákvörðunina um hámarksverð á lyfjum og umfjöllun um þá ákvörðun, því það hlýtur að vera eðlilegt að héraðsdýralæknar eigi fulltrúa í verðlagsnefnd þegar kemur að ákvörðun um hámarksverð. Það er því nauðsynlegt að einnig sé gerð breyting á 40. gr. en þetta frv. gerir ekki ráð fyrir því.
    Ég tel að hér hafi ekki verið nægur undirbúningur og sé nauðsynlegt að annaðhvort verði annað frv. flutt eða hv. heilbr.- og trn. taki þetta til meðferðar og geri þær nauðsynlegu úrbætur á lögunum sem ég tel að verði að gera.
    Auðvitað höfum við þingmenn fengið viðbrögð við þessu frá bændum og ég get sagt frá því við þessa umræðu að hæstv. heilbr.- og trmrh. og hæstv. landbrh. hafa átt viðræður um þetta mál og ég get borið þau boð inn í þessa umræðu að hæstv. heilbrrh. mun ganga til þess að flytja hér frv. sem tryggir nauðsynlegar breytingar varðandi lyfsölu dýralæknanna og annað sem því tengist að höfðu samráði við hæstv. landbrh. Væri eðlilegt að það yrði þá gert í tengslum við afgreiðslu á þeim bráðabirgðalögum sem sett voru og hljóta að koma til afgreiðslu þingsins innan skamms tíma.
    Ég tel því rétt að fresta afgreiðslu þessa frv. þangað til séð verður hvernig heilbrrh. bregst við þessu en hann hefur lýst því yfir við mig að hann telji nauðsynlegt að gera lagfæringu á lyfjalögunum sem tryggi það að dýralæknar geti selt bændum lyf og haldið þannig úti eðlilegri og nauðsynlegri þjónustu. Þetta vildi ég að kæmi fram við þessa umræðu.