Lánsfjáraukalög 1994

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 14:17:49 (384)


[14:17]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það var afar athyglisvert að fylgjast með deilum hv. 12. þm. Reykv. við hæstv. fjmrh. því ef ég man rétt var það síðast í fyrravetur í deilum um húsnæðismál og stöðu félmrh. innan ríkisstjórnarinnar að þáv. hæstv. félmrh., núv. 12. þm. Reykv., að það jaðraði við ástarjátningar í garð hæstv. fjmrh., hvað hann væri nú góður þessi fjmrh. í þessari ríkisstjórn og mun betri en sá sem við var að eiga áður.
    En þetta var ekki aðalatriði mitt hingað upp heldur kannski hitt, virðulegur forseti, að ég hef eiginlega hugsað mér að fá að hafa mínar skoðanir og bera þær fram úr ræðustól Alþingis án þess að þurfa að sækja um sérstakt leyfi til hv. 12. þm. Reykv. eins og mér fannst liggja í hennar orðum þegar hún ræddi um þær umræður, sem ég vil segja málefnalegu umræður, sem fóru fram um ríkisábyrgð á húslánakerfinu. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að leita leiða til þess að vinna okkur út úr því en það kom líka skýrt fram í minni ræðu að það er ekkert sem við gerum einn, tveir og þrír. Það tekur nokkuð langan tíma en til lengri tíma litið er ég þeirrar skoðunar að við eigum engan annan kost. Það mun ekki ganga að stór hluti þeirra peninga sem eru í húsnæðisviðskiptum hér á landi séu á ábyrgð ríkisins. Meðan svo er nær húsbréfakerfið aldrei að festa sig þannig í sessi að það standi á eigin fótum.