Lánsfjáraukalög 1994

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 14:59:40 (394)


[14:59]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta er örstutt. Ég vil aðeins segja út af innstæðunni í Seðlabankanum. Vextir þar hafa verið tiltölulega lágir, en ég efast um að við getum fundið ávöxtun á þessum fjármunum sem muni nægja til þess að þetta standist á við það sem þar þarf að gerast.
    Í öðru lagi var það ekki misskilningur af minni hálfu, ég skildi hv. þm. alveg rétt þegar hann talaði um mismunandi ábyrgðargjald eftir lánshlutfalli. Það eina sem ég benti á var að það hefur þýðingu, veðhæfnin hefur auðvitað þýðingu, því að eftir því sem lánshlutfallið vex þá hefur það meiri þýðingu hvert er varanlegt verðgildi eignanna. Þar á meðal hefur þýðingu hvar á landinu eignirnar liggja. Það er þá sama hættan sem getur komið upp í slíku kerfi, eins og ef við hyrfum frá ríkisábyrgðinni, að það yrði að taka tillit til varanlegs markaðsverðs eignanna. Það var það eina sem ég var að benda á, en ég skildi held ég hv. þm. alveg nákvæmlega eins og hann lýsti, að það er hærra verð greitt fyrir það þegar lánshlutfallið hækkar, af því að áhættan er meiri.