Lánsfjáraukalög 1994

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 15:04:13 (397)


[15:04]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins vekja athygli á því í tilefni af ummælum hv. 12. þm. Reykv., að ég tel að í raun og veru séu heimildir þær sem eru í lögum til þess að veita greiðslufrest á húsnæðislánum ekki nægilega góðar. Þess vegna þurfi að breyta þeim heimildum vegna þess að heimildirnar eru núna þannig, samkvæmt 82. gr. laganna, að ef frestað er afborgun um tiltekinn tíma þá er frestunin dráttarvaxtareiknuð. Þannig að það gengur auðvitað ekki og dugir ekki og þess vegna höfum við flutt þessa hugmynd og hæstv. félmrh. reyndar gert grein fyrir annarri hugmynd um breytilegan lánstíma. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst hv. 12. þm. Reykv. hafa tekið nokkuð neikvætt í hugmyndir hæstv. núv. félmrh. varðandi það að vera með lengri lánstíma. Mér er alveg ljóst að það getur verið að á því séu einhverjir örðugleikar í framkvæmdinni, en ég er nú ekki svo góðu vanur frá þessari ríkisstjórn að mér finnst ástæða til að taka því öllu vel sem heyrist af henni og er tilbúinn til þess að hlusta með jákvæðum hætti á hugmyndir hans um breytilegan og fljótandi lánstíma. Ég held að það væri skynsamlegt af stjórnarandstöðunni að hjálpa frekar hæstv. félmrh., eins og núv. stjórnarandstaða hefur reyndar oft hjálpað félmrh. á þessu kjörtímabili, eins og hv. 12. þm. Reykv. man örugglega eftir.