Forgangsröð kennslu erlendra tungumála

10. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 15:49:10 (445)

[15:49]
     Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég held að þetta undirstriki að staða dönskunnar og dönskukennslunnar þarfnast athugunar við. Fyrir um aldarfjórðungi var farið að kenna 10 ára börnum dönsku sem ekki hafði verið, fram að því hafði dönskukennsla hafist hjá 12 ára börnum. Nýjung í kennsluháttum var tekin upp og öllu bylt um, lagt í þetta mikið en þetta skilaði að því er virðist litlum eða engum árangri. Nú er staðan sú að grunnskólanemendur eru eftir fimm ára nám í dönsku almennt afar illa að sér. Ég held að fjármagn þurfi að leggja í það að kanna stöðu dönskukennslunnar. Skoðun mín er sú að danskan sé hluti af því sem við þurfum að kunna ef við ætlum að taka þátt í samstarfi norrænna þjóða. E.t.v. væri norskan vænlegri, en það er kannski erfiðara um vik að fara að skipta um það núna en norrænt tungumál er okkur alger nauðsyn.
    Ég vil aðeins benda á eitt atriði sem mönnum hefur sést yfir. Það að þýða og miðla barnaefni á íslensku er kannski ekki alltaf einhlítt því að þetta hefur haldist í hendur við það að Andrés Önd var þýddur á íslensku. Úr því hefur dönskukennslu sýnilega og mjög verulega hrakað.