Lánsfjáraukalög 1994

12. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 17:47:09 (477)


[17:47]
     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Er venjan að tölusetja það hvort menn eru að tala í fyrsta, annað eða þriðja sinn? Ég er nú frsm., hæstv. forseti, og hef þar af leiðandi rétt til að tala þrisvar í þessari umræðu og á þess vegna talsvert eftir, ef út í það er farið, af réttindum mínum, ef hæstv. forseta skyldi verða hugarhægra við að fá þær upplýsingar, þá er hann sem sagt ekki í neinni hættu með að veita mér of oft orðið enn sem komið er.
    Á hinn bóginn hef ég svo sem ekki miklu við þetta að bæta öðru en því sem hér hefur fram komið undir umræðunni. Ég sé ástæðu til að fara um þá þætti sem hér hafa aðallega orðið umtalsefni nokkrum orðum. Í fyrsta lagi auðvitað það að frammistaða hæstv. fjmrh. hér, svo aumleg sem hún nú er í raun og veru, undirstrikar það að vaxtabólan eða blaðran eða hvað það nú heitir á hinu löggilta máli hæstv. ríkisstjórnar er sprungin. Það voru mikið til umræðu ýmsar blöðrur og bólur hjá ríkisstjórninni í sumar, það voru sumarbólur og sumarblöðrur eða ég man nú ekki hvað það var allt saman. Ráðherrarnir töluðu um það á víxl að þessi eða hin blaðran eða bólan væri sprungin o.s.frv. Og nú er alveg ljóst að ein blaðran eða bólan er sprungin í andlitið á hæstv. ríkisstjórn, það er vaxtabólan.
    Hæstv. fjmrh. og starfandi forsrh. reynir ekkert að andmæla því hér. Þær aðstæður sem við höfum dregið hér upp á fjármagnsmarkaðnum og sú vaxtahækkun sem í gangi er og fram undan er, hæstv. fjmrh. velur þann kostinn að reyna í raun og veru ekkert að bera á móti því að kerfið sé sprungið, enda tala allar aðstæður sínu máli. Það er auðvitað alveg ljóst að eftir að markaðurinn hafði átt að ráða um nokkurt skeið hjá hæstv. ríkisstjórn og við sátum uppi með einhverja hæstu vexti á Vesturlöndum, þá greip ríkisstjórnin í samráði við Seðlabankann eða píndi Seðlabankann með sér í það að grípa til ákveðinna þvingunaraðgerða á markaðnum og vextirnir voru keyrðir niður með því að beita og neyta aflsmunar, handleiðslu eða beita handafli á markaðinn eða hvað maður á nú að kalla það. Og hvernig var þetta gert? Jú, þetta er ósköp einfalt. Staða Seðlabankans var einfaldlega nýtt til hins ýtrasta. Hún var notuð upp á tæpu einu ári til þess að halda niðri vöxtunum á markaðnum. Þetta gat gengið á meðan Seðlabankinn nýtti til fulls alla sína möguleika og keypti og keypti og hlóð þessum pappírum upp hjá sér þannig að þeir hljóta að vera í stöflum niðri í kjallara Seðlabankans. Þeir sem hafa komið inn í þá höll og skoðað kjallarann vita hvernig þar er umhorfs. Þar eru miklir salir stúkaðir af með járngrindum og svo er í einu og einu horni nokkrir kassar, nokkrir einmana og aumingjalegir pappakassar. Þar er til að mynda gullmyntforðinn gamli. Það er nú víst ekki óhætt að segja það, hæstv. forseti, eins og krækiber í helvíti, en það mundi þjóðin skilja. Það er smáhrúgald í einu horninu, það er gullforðinn. Og þetta er sennilega eins með pappírsbunkana núna. Þeir eru komnir í einhverja svona stafla, einhvers staðar úti í horni í kjallara Seðlabankans. Ríkispappírarnir sem hafa hrúgast þar upp af því að Seðlabankinn hefur verið píndur til þess, notaður til þess að kaupa þessa pappíra jafnóðum og ríkisstjórnin eða byggingarsjóðirnir hafa orðið að fá peninga og svo segja menn voðalega spenntir: Þetta er nú fínt. Ríkissjóður aflar allra sinna fjármuna á markaði og húsnæðiskerfið er fjármagnað á markaði og þetta er allt harla gott. En svo bara allt í einu gengur þetta ekki lengur af því að Seðlabankinn getur ekki meira. Hann er búinn að hlaða upp þessum pappírum þangað til hann á 25 milljarða nettó af þessum bréfum og getur ekki meira. ( Gripið fram í: Fullan kjallarann.) Fullan kjallara, en þó er það nú því miður sennilega ekki það sem stoppar, plássleysið, heldur peningaleysið. Seðlabankinn ræður ekki við meira. Hann er búinn að ganga það nærri stöðu sinni að hann hefur orðið að halda algerlega að sér höndum síðustu mánuðina. Og þá er sem sagt blaðran sprungin, Seðlabankinn sprunginn á limminu, getur þetta ekki lengur og vaxtalækkunarbóla ríkisstjórnarinnar þar með.
    Þetta er náttúrlega niðurstaðan af þessari umræðu, sú staða sem blasir við hér í upphafi þegar hæstv. fjmrh. er hér að baksa með þessi mál sín, fjárlagafrv., lánsfjárlögin, lánsfjáraukalög, ríkisreikningana og allt þetta gúmmelaði sem hann er með á dagskrá fram undan, þá liggur þetta fyrir. Þetta er auðvitað erfitt og það er von að hæstv. fjmrh. færi gleraugun fram á nefbroddinn og lesi bara Dagblaðið. Það er miklu skemmtilegra heldur en þessar staðreyndir um ríkisfjármálin.
    Í öðru lagi, hæstv. forseti, er það svo að það er afar slæmt að hafa ekki hæstv. ráðherra Alþfl. í landinu þegar þarf að ræða þessi mál en þeir eru yfirleitt fjarstaddir allir með tölu eða flestallir og upplýst er að þeir séu ( RG: Það eru tveir erlendis.) að það séu tveir þeirra erlendis, er það ekki helmingurinn af ráðherrum Alþfl. ef rétt er talið? Mér skilst að þeir séu ekki orðnir nema fjórir. Þeim hefur farið fækkandi og verður vonandi áframhald á þeirri þróun. Þannig er það að hæstv. félmrh. sem ætti að svara fyrir stöðuna í þessum húsnæðismálum er bara erlendis og það er lítið gagn í hæstv. fyrrv. félmrh., hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir er farin úr salnum, en auðvitað má segja að staðan í þessum málum sé fullt eins á ábyrgð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur því að hún er sama persónan í pólitík hvort sem hún er þingmaður í stjórnarandstöðu eða var ráðherra í ríkisstjórn. Hún fær ekkert nýtt vegabréf í íslenskum stjórnmálum, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, þó að hún gangi úr ríkisstjórn. Hv. þm. situr uppi með þá stöðu að hafa verið félmrh. í sjö ár, þar af í þrjú og hálft ár í ríkisstjórn með hæstv. ráðherra Friðrik Sophussyni og sameiginlega bera þau auðvitað mesta ábyrgð á því hvernig farið hefur verið með fjármunamál byggingarsjóðanna. Ég verð að segja alveg eins og er, að ég er kannski svona kaldrifjaður en ég klökkna ekkert þó að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrv. félmrh., komi hér og haldi hjartnæmar ræður og spyrji hæstv. fjmrh. hvað eigi að gera. Hvað á að gera með þessi óskaplegu vanskil og þessa erfiðleika aumingja fólksins? Hvað hafa þau verið að gera saman í ríkisstjórn í þrjú og hálft ár, hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, á þeim tíma sem þessi vanskil hafa verið að hlaðast upp?
    Í gögnum efh.- og viðskn. er tafla sem sýnir það mánuð eftir mánuð eftir mánuð sl. þrjú ár hvernig vanskilin hafa verið að hrúgast upp og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir getur auðvitað ekki komið núna á haustmánuðum 1994 og látið eins og þetta komi henni allt á óvart og séu allt nýuppgötvaðir hlutir. Hv. þm. hefur þá ekki fylgst vel með því vanskilin hafa verið að lengjast jafnt og þétt undanfarin þrjú ár. Og það að segja að tillögur okkar alþýðubandalagsmanna til að mynda um ráðstafanir gagnvart greiðsluerfiðleikunum leysi ekki þessi mál eru engin svör, hvorki af hæstv. fyrrv. félmrh. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur né hæstv. fjmrh. Menn verða þá a.m.k. að segja hvað ætla þeir að gera í staðinn. Og ef það er mat manna að útgáfa greiðsluerfiðleikalána sem færðu greiðslubyrðina aftur fyrir og lengdu þar með lánin sé ekki fær leið vegna þess að afföll mundu þá aukast o.s.frv., þá spyr ég ósköp einfaldlega: Hvað gera menn þá? Ég held að þá eigi menn að skoða til að mynda þann möguleika að greiðsluerfiðleikalánin verði annars konar lán, ekki húsbréf heldur föst lán til lengri tíma. Hvað með það? Nú er það svo að húsbréfaútgáfan er deild í Byggingarsjóði ríkisins. Með öðrum orðum, Byggingarsjóður ríkisins gefur út húsbréfin og þar eru starfræktir fastlánaflokkar og ég spyr hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og fyrrv. félmrh.: Hafa menn aldrei velt því fyrir sér að greiðsluerfiðleikalánin yrðu sérstök lán, ekki húsbréf heldur föst lán til lengri tíma því að það er auðvitað alveg rétt að það er takmarkað gagn í því fyrir þetta aumingja fólk, til að mynda þá sem hafa fengið greiðsluerfiðleikahúsbréf því að allt áttu húsbréfin að leysa í tíð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Það átti hvers manns vanda að leysa með húsbréfum og það var hrúgað út húsbréfum handa greiðsluerfiðleikafólkinu. En hver er niðurstaðan? 60% af þeim lánum eru í vanskilum. Meira en helmingur hefur reynst þannig að dæmið gekk ekki upp hjá fólkinu, m.a. vegna þess að auðvitað ræður þetta fólk ekki við þau lánskjör sem þarna eru á ferðinni, ekki á sama tíma og kaupið er að lækka, atvinnutekjur að dragast saman. Þess vegna hefði ég talið að það mælti allt með því að greiðsluerfiðleikalánin væru skilgreind á einhverjum öðrum forsendum, til að mynda föst lán, viðbótarlán sem þessi greiðsluerfiðleikahópur gæti fengið til hliðar við húsbréfin og væri til að mynda á einhverjum öðrum kjörum og til lengri tíma. Í öllu falli komast menn ekki svo auðveldlega frá umræðunni að segja að annars vegar: Tillögur Alþb. ganga ekki í þessum efnum, og snúa sér að því að spyrja hæstv. fjmrh. hins vegar: Hvað á að gera? Eins og þegar liggur fyrir hefur hæstv. fjmrh. engin svör og sá hv. þm. sem borið hefur ábyrgð á þessu sem ráðherra í sjö ár getur ekki gert svo einfaldlega upp við sína fortíð í málunum að varpa því öllu saman yfir á herðar fjmrh. með einni spurningu: Hvað á að gera? Við verðum að horfast í augu við það, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, að húsbréfakerfið eins og það hefur reynst hefur ekki gengið upp nema

að litlu leyti gagnvart þeim markmiðum sem það átti að þjóna.
    Hverjar voru meginröksemdirnar bak við húsbréfakerfið á hverjum tíma? Ein sú mikilvægasta sem tönnlast var á og hefur auðvitað alveg brugðist --- hver er hún? Hún var innri fjármögnun húsbréfakerfisins sjálfs sem átti að felast í því að það fólk sem ætti afskrifað húsnæði mundi leggja til stóran hluta af fjármagninu með því að taka húsbréf upp í í fasteignaviðskiptum og eiga þau áfram. Þar með mundi felast í tilkomu húsbréfakerfisins heilmikil innri fjármögnun vegna þess að eignir þessa fólks, sem ætti mikið af skuldlausu húsnæði í landinu, mundu í raun færast yfir í húsbréf sem þetta fólk ætti. Ég spyr: Hvar er þessi innri fjármögnun? Hún er hvergi, hún hefur ekki komið fram í kerfinu vegna þess að það er auðvitað alveg augljóst mál að ef það hefur gerst að milljarðar eða milljarðatugir hefðu komið inn í þetta dæmi í formi innri fjármögnunar þá væri ástandið ekki eins og það er í dag.
    Í öðru lagi er óhjákvæmilegt að fara yfir afföllin sem hafa orðið í sambandi við húsbréfin. Auðvitað er það svo að gagnvart þeirri hrikalegu staðreynd að afföll á húsbréfum fóru upp undir 25% þegar verst lét þá standa þeir aðilar auðvitað afar berskjaldaðir sem seldu okkur kerfið í byrjun með heitstrengingum um að aldrei yrðu afföll á húsbréfum. Það er nú ekki svo að ræðumaður muni ekki eftir því að það var svarið og sárt við lagt að aldrei yrðu afföll á húsbréfum af því að ríkisábyrgð væri á bak við þau og þetta væru þannig pappírar að engin ástæða væri til að óttast það. Skyldu ekki greiðsluerfiðleikar æðimargra, sem við höfum fengið upplýsingar um, stafa af því að þeir tóku kannski húsbréfalán upp á 4 milljónir en fengu aldrei nema 3 milljónir í hendurnar vegna þess að þeir fóru út á markaðinn með húsbréfin sín, seldu þau og afföllin að viðbættum kostnaði fóru þegar verst lét upp í 25%? Ég þekki svona dæmi. Bóndi norður í landi lagði fyrir mig pappíra sína upp á það að hann var að byggja sér hús, fór í þetta fína greiðslumat og honum var sagt að hann væri borgunarmaður fyrir 4 millj. Bóndinn var harla glaður og ræddi við sína smiði. Hann sá að hann mundi ná að klára þetta dæmi með því að fá 4 millj. kr. húsbréfalán. Svo koma húsbréfin og bóndinn fer í bankann, nánar tiltekið Búnaðarbankann á viðkomandi stað, og ætlar að selja bréfin og fara heim með 4 millj. til þess að borga fyrir timbur, sement og annað því um líkt. Hvað gerist? Hann fær 3 millj., en hann skuldar 4 millj. Frá fyrsta degi er staða hans þannig og hvað gerist þá? Það vantar milljón sem hann hafði gert ráð fyrir að fá til að borga sement, timbur og annað því um líkt. Hvað haldið þið að verði um þá milljón? Hún gufar ekki upp. Byggingarkostnaður hússins lækkar ekki sem því nemur. Nei, auðvitað lendir bóndinn í því að hann fer og lætur menn skrifa upp á víxla og skuldabréf og nær einhvern veginn í þessa peninga og þeir þyngja greiðslubyrðina sem þessu nemur. Og skyldi nú ekki staða hans vera nokkru verri fyrir vikið? Gæti ekki verið að þeir miklu greiðsluerfiðleikar sem við erum að sjá stafi m.a. af þessu?
    Þess vegna þýðir auðvitað ekki að reyna að koma sér hjá því að ræða hér orsök og afleiðingu. Ég er þeirrar skoðunar að það komist ekkert réttlæti og engin sanngirni inn í þetta húsbréfakerfi fyrr en farið verður yfir það hvernig hinir einstöku hópar sem fengu húsbréf á hverjum tíma fyrir sig komu út úr afföllunum og það verði að fara yfir það hvort ekki er hægt með einhverjum hætti að leiðrétta stöðu þessara hópa, til að mynda með því að þeir sem tóku húsbréfalán á einhverjum tilteknum tíma og afföllin voru þá sannanlega til að mynda 20%, það verði gert ráð fyrir því með einhverjum hætti í sambandi við endurfjármögnun á húsbréfalánum þeirra aðila eða í formi viðbótarlánveitinga til þeirra á föstum kjörum eða annað þar fram eftir götunum. Þetta er auðvitað hægt að gera. Sama á við um vaxtamismuninn sem núna er inni í kerfinu. Þeir sem tóku húsbréf fyrir ári eða einu og hálfu ári síðan gerðu það á 6% vöxtum en síðan hafa þeir verið lækkaðir í 5%. Í Danmörku er sá möguleiki hafður inni í kerfinu að það er hægt að endurfjármagna þessi lán, greiða þau upp og fá notið lægri vaxta ef þeir eru fyrir hendi, á Íslandi er það ekki. Mér er tjáð af þeim sem sækja nú um það að skipta um húsbréf vegna íbúðarkaupa, þeir eiga kannski íbúð og tóku til þess að kaupa hana húsbréfalán á 6% vöxtum, nú ætla þeir að fara í íbúðarskipti og spyrja: Getum við þá greitt upp það lán og fengið útgefið nýtt og hærra húsbréfalán til kaupa á nýrri íbúð? Svarið er nei. Þá verði menn að halda því sem nemur eldra láninu á hærri vöxtum en eigi þá kost á viðbótarláni á lægri vöxtunum. Þannig er í hverju tilvikinu á fætur öðru verið að innbyggja mismun í þetta kerfi gagnvart einstökum hópum vegna breyttra ákvarðana um vexti, vegna þess að afföllin voru mismunandi á hverjum tíma o.s.frv. Þetta er nú þetta fína kerfi og svona er staðan á því eins og hún er í dag.
    Ég held að menn þurfi að taka sér tíma í það, það verður ekki gert nú, hæstv. forseti, vegna þess að það þarf að afgreiða þetta mál sem fyrst, en húsnæðisvandinn og vandi þeirra sem þarna eiga í hlut gufar ekki upp, hann hleypur ekki frá okkur, hann mun ekki hverfa hér út úr þingsölunum þó að þetta mál fari þaðan, vegna þess að hann er eiginlegur, efnislegur, brennandi vandi úti í þjóðfélaginu. Staðan í þessu kerfi er auðvitað þannig að það er óhugsandi annað en að þingið taki sér rækilega tíma í að skoða það og reyna að bæta þarna eitthvað úr. Ég er þeirrar skoðunar að þetta markaðsfjármagnaða húsnæðislánakerfi hjá okkur Íslendingum gangi ekki upp og ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið algjör vitleysa að hverfa frá samningsbundinni fjármögnun lífeyrissjóðanna inn í þetta kerfi að einhverju leyti, a.m.k. að gera það á jafnskömmum tíma og jafnveikum forsendum og raun ber vitni. Hver er útkoman af því? Hver er niðurstaðan af því? Hún er sú að menn hafa alls ekki getað fjármagnað byggingarsjóðina á þessum markaði, ekki neitt. Menn hafa nánast ekki fengið neina peninga inn í Byggingarsjóð ríkisins allt þetta ár á markaðnum. Ríkissjóður sjálfur hefur orðið að leysa úr þeirri þörf með því að veita fé í gegnum Lánasýslu ríkisins yfir í byggingarsjóðina. Þannig er ástandið. Og ætla menn svo að koma hér og láta eins og ekkert sé, þetta sé

allt í þessu fína lagi, þegar vextir eru á bullandi uppleið og fjármögnun kerfisins er í uppnámi, í raun og veru í algjöru uppnámi?
    Það getur vel verið að úr því rætist eitthvað ef vaxtahækkun gengur hér yfir línuna þannig að eftir fáeina mánuði verði ávöxtunarkrafan komin upp í 6--7%, þá komist kaup í gang á nýjan leik, en þá verða menn líka að bíta í það súra epli að blaðran er algjörlega sprungin og auðvitað er hún það. Auðvitað liggja þessar aðstæður algjörlega fyrir, hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur í raun og veru sprungið þarna á limminu.
    Það leitar auðvitað á mann, hæstv. forseti, að lokum, hvort málin snúist ekki einfaldlega um óheppilega tímasetningu hjá hæstv. ríkisstjórn. Með öðrum orðum, að ríkisstjórnin hafi feilreiknað sig um eins og hálft ár þegar hún ákvað í aðdraganda kosninga að ná niður vöxtunum með þeim brögðum sem beitt var og halda þeim lágum fram yfir kosningar. Kannski var það m.a. þess vegna sem hæstv. forsrh. vildi fá haustkosningar. Hann vissi að blaðran var að springa. Hann sá og hafði þá um það upplýsingar að Seðlabankinn gat ekki meira, að spilaborgin mundi hrynja á næstu mánuðum. Eða þá að þeir feilreiknuðu sig um eins og hálft ár og lögðu of snemma af stað í vaxtalækkunarleiðangurinn og blekkinguna sem átti að standa fram yfir kosningar, það var lagt of snemma af stað. Því auðvitað er alveg ljóst að þetta er að rakna upp og öllum að verða ljóst hvaða sýndarmennska og blekkingar voru hér á ferðinni, að það hefur ekki náðst neinn eiginlegur eða efnislegur árangur í þessum efnum heldur var hann tilbúinn með því að nota upp alla möguleika og alla getu Seðlabankans til að kaupa niður vextina. Það gekk í um það bil eitt ár eða tæpt ár, en nú gengur það ekki lengur og þá verða menn að horfast í augu við þær staðreyndir eins og þær eru, þó að það sé að sjálfsögðu greinilega erfitt fyrir hæstv. fjmrh. og ýmsir fleiri eigi þar um sárt að binda sem tóku þátt í leiknum og þar á meðal hæstv. fyrrv. félmrh., sem hefur auðvitað komið fram í þessari umræðu í harla sérkennilegri stöðu, svo ekki sé meira sagt.