Málefni Ríkisútvarpsins

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 15:40:47 (524)

[15:40]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Mikil nátttröll stjórna Ríkisútvarpinu. Málfrelsi ríkir nú í Sovétríkjunum gömlu og allt er fullt af frjálsum stöðvum á Íslandi í dag. Að reka pistlahöfunda úr starfi, sem þjóðin vill hlusta á, er skortur á skilningi, á markaðslögmálum og gerbreyttum aðstæðum í þjóðfélaginu.
    Illugi Jökulsson er um þessar mundir besti pistlahöfundur á Íslandi, jafnvel í Evrópu. Hann er það fyrir hárbeitta gagnrýni og góðan húmor fyrst og fremst. Nú munu aðrir ráða hann til starfa. Íhaldið stöðvar ekki lengur hið frjálsa orð á Íslandi. Spéhrædd ríkisstjórn og fótsárir ráðherrar eftir gönguna í Ódáðahrauni spillingarinnar og einkavinavæðingarinnar geta ekki þaggað niður í háði og gagnrýni þeirra sem þrá betra þjóðfélag á Íslandi. Þökk sé málfrelsinu, þökk sé frelsi fjölmiðlanna.
    Mér er sagt að við blasi að Sigmund, hinn víðfrægi teiknari Morgunblaðsins, verði rekinn af Mogganum fram yfir kosningar þar sem í myndum hans sé hæstv. forsrh. ekki nógu fallegur og drullusokkurinn særi annan hæstv. ráðherra. Menn skilja áður en skellur í tönnum. Sjálfstfl. kennir Illuga um að R-listinn vann Reykjavík í vor. Útvarpsstjóri segir, með leyfi forseta, í Morgunblaðinu í dag:
    ,,Annar pistlahöfundurinn var látinn hætta af því að hann hafði a.m.k. einu sinni farið langt út fyrir þau mörk hófsemdar og tillitssemi er að framan greinir. Líklegt þótti að honum kynni enn að verða hið sama á. Aðstæður í íslensku mannfélagi gerðu það að verkum að ástæðulaust er talið að eiga slíkt yfir höfði sér að sinni.``
    Það var mannfélagið sem barst til sögunnar. Hvaða hætta var á ferðum? Hver var það sem hótaði útvarpsstjóra? Var honum hótað brottrekstri, hæstv. menntmrh.? Sá grunur liggur á Sjálfstfl. að hann vilji losna við útvarpsstjórann frá störfum. Er hann undir hæl Sjálfstfl.? Á hann það á hættu að fara af sínum launum og verða brott rekinn ef hann hlýðir ekki Sjálfstfl.? Síðar viðurkennir útvarpsstjóri að hafa veitt Illuga viðvörun fyrir fjórum mánuðum, löngu eftir borgarstjórnarkosningar, ári fyrir alþingiskosningar næstu. Hvers lags eiginlega tillitssemi er þetta að verða? Ég held að þjóðin sjái að þetta gengur ekki upp. Þjóðin vill að Ríkisútvarpið leyfi Illuga að tala. Þjóðin vill frjálsa umræðu. Allir þurfa aðhald í gegnum gagnrýni. Það eru pólitísk fingraför, fyrst og fremst Davíðs Oddssonar, hæstv. forsrh., á þessu máli. Þetta minnir mjög á Hrafnsmálið og fleiri mál sem varða Ríkisútvarpið sem hafa komið upp á þessu kjörtímabili.
    Hvað Hannes Hólmstein varðar tek ég undir að mér finnst ágætt að hann tali. Hann minnir á fáránlega frjálshyggjustefnu þessarar ríkisstjórnar, minnir á hversu vitlaus stefna hennar er. Ríkisútvarpið verður hins vegar að þekkja sinn vitjunartíma eigi hver maður áfram að greiða því skylduaðild eins og nú er ellegar sviptur mannréttindum. Þessu verður Ríkisútvarpið að átta sig á að hér er tekist á um það.
    Hæstv. forseti. Við hafsbrún dynja fjaðrir nýrrar aldar. Við leggjum á það áherslu að hið talaða orð megi vera frjálst í framtíðinni og að útvarpið megi losna undan ofstjórn Sjálfstfl. sem allra fyrst.