Ráðherraábyrgð

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 17:51:27 (548)

[17:51]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er mjög athyglisvert mál til umræðu og ég held að þeirri þingnefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar, sem væntanlega er allshn., beri að skoða þetta mál mjög vandlega og komast að niðurstöðu um það hvort hér skortir einhver tæki til þess að taka á málum ráðherra eða að lýsa því þá yfir ef þau tæki eru nægjanleg. Ég treysti mér ekki til þess að kveða upp úr um það. Svo mikið er víst að þau tæki sem eru til staðar hafa ákaflega lítið verið notuð og þess eru afar fá dæmi í íslenskri stjórnmálasögu að ráðherrar hafi verið dregnir til ábyrgðar fyrir gjörðir sínar. Eina málið sem ég man eftir eru málaferlin sem Magnús Guðmundsson ráðherra átti í á fjórða áratugnum og snertu, ef ég man rétt, ekki hans gjörðir sem ráðherra heldur var þar um önnur mál að ræða en hann sagði af sér embætti eftir að hann hafði fengið á sig dóm.
    Ég held að umræður undanfarinna vikna og mánaða sýni það og sanni að við þurfum vissulega að skoða þessi mál mjög rækilega. Við erum að tala um tvenns konar viðmiðanir. Annars vegar ef um brot á lögum eða ásakanir um brot á lögum er að ræða og það er hægt að taka á þeim málum með þeim tækjum sem við höfum en það er verra þegar kemur að hinni siðferðilegu ábyrgð. Hvernig tökum við á henni? Svo ég vitni í það mál sem mest hefur verið til umræðu, þ.e. embættisfærslur hæstv. félmrh. Guðmundar Árna Stefánssonar, þá dreg ég það mjög í efa að Ríkisendurskoðun geti sýnt fram á það að hann hafi brotið reglur hvað þá brotið lög. En hans gjörðir eru vissulega á mörkum hins siðlega eða boðlega enda hefur hann sjálfur viðurkennt það að hann hafi sýnt dómgreindarskort í vissum tilvikum. Tæki eins og Ríkisendurskoðun nýtist einfaldlega ekki í slíkum málum. Þar kemur að Alþingi að kveða upp úr um það hvort ráðherrar eru þess trausts verðir að sitja á ráðherrastól hvort þeir hafa hegðað sér með þeim hætti að lýsa beri vantrausti á þá og þar hlýtur það að vera Alþingi sem fellur hinn siðferðilega dóm.
    Eins og kemur fram í þessari athyglisverðu grein er það svo að í krafti meiri hlutans eru menn varðir fram í rauðan dauðann og menn vilja ekki gangast undir þessa ábyrgð. Menn koma sér hreinlega hjá því að gangast undir þessa ábyrgð. Ég vísa hér til þess sem hæstv. forsrh. sagði í umræðum á Alþingi í síðustu viku, held ég að það hafi verið, þar sem hann vísaði allri ábyrgð yfir á Alþfl. Af því að Alþfl. ákvað að halda hlífiskildi yfir sínum ráðherra þá segir forsrh.: Það er þeirra mál, án þess að fara á nokkurn hátt ofan í hvað þar er á ferð. Þetta þykir mér vera afar sérkennileg afstaða og er meginástæðan fyrir því að sú vantraustsstillaga sem liggur fyrir þinginu er eins og hún er. Við viljum gefa þingmönnum kost á því að lýsa yfir trausti eða vantrausti á einstökum ráðherrum ef þingmenn óska þess.
    Ég vísa því algjörlega á bug að þessi tillaga sé ekki með þinglegum hætti. Ef svo hefði ekki verið þá hefði hún að sjálfsögðu ekki verið lögð fram. Það er forseta þingsins að kveða upp úr um það og stöðva mál sem ekki eru í anda þeirra þinghefða sem hér ríkja. Ég vísa því þess vegna algjörlega á bug að tillagan sé ekki með eðlilegum hætti.
    Ég vil taka undir að það er margt fleira sem þarf að taka inn í umfjöllun hér. Ég er mjög hlynnt þeirri hugmynd sem hv. þm. Páll Pétursson setti fram í sínu frv. varðandi villandi upplýsingar gagnvart Alþingi eða þegar upplýsingum er hreinlega haldið leyndum eins og við höfum dæmi um. Nú er það spurningin: Er það gert vísvitandi eða veit ráðherrann ekki betur? Ég er hér m.a. að vísa til umræðunnar um Evrópska efnahagssvæðið.
    Annað er það hvaða reglur eiga að gilda um gáleysislega meðferð á almannafé. Er ráðherrum heimilt að ganga þar um eins og þeim nánast sýnist? Það er spurning hvaða reglur eiga að gilda.
    Að sjálfsögðu er það Alþingi sem ber hina endanlegu ábyrgð en mér finnst full ástæða til þess að kanna hvort og þá hvernig við getum bætt okkar meðferð á þessu máli. En síðast en ekki síst er þetta eins og oft áður spurning um hugarfar og siðferði og að menn taki sig á í þeim efnum og beri ábyrgð gagnvart sínum umbjóðendum, fólkinu í landinu, og víki þeim ráðherrum frá eða lýsi vantrausti á þá ráðherra sem ekki eru þess trausts verðir að sitja í ríkisstjórn. Ég held að við höfum gengið allt of langt í því á undanförnum árum að láta ráðherra komast upp með alls konar aðgerðir, bæði stöðuveitingar og fjárútlát og fleira slíkt þar sem allt of langt hefur verið gengið vegna þess að menn eru að verja sitt fólk. Þó höfum við reyndar eitt dæmi sem fléttast hefur inn í þessa umræðu alla saman, um fyrrv. ráðherra Albert Guðmundsson sem sagði af sér á sínum tíma, m.a. vegna þess að hann hafði setið beggja vegna borðsins í svokölluðu Hafskipsmáli. Þar var það hans flokkur sem knúði hann til afsagnar með afar sérkennilegum afleiðingum.
    Þetta eru vandmeðfarin mál, þau eru vissulega mjög vandmeðfarin en eins og ég segi er þetta síðast en ekki síst spurning um það siðgæði sem ríkir í stjórnmálum á hverjum tíma.