Ráðherraábyrgð

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 18:03:39 (551)

[18:03]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Herra forseti. Ég held að við séum komin hér að kjarna málsins sem vikið er að í greinargerð með þessari þáltill. og í þeim skjölum sem hv. þm. Svavar Gestsson hefur lagt fram. Það er annars vegar að gera greinarmun á hinni pólitísku ábyrgð og hins vegar á hinni lagalegu ábyrgð. Við höfum hér stofnun eins og Ríkisendurskoðun og umboðsmann Alþingis. Við getum sett niður rannsóknarnefndir. Við höfum lög um ráðherraábyrgð. Þetta er allt fyrir hendi. Nú er m.a. að ósk viðkomandi ráðherra verið að kanna þeirra mál af Ríkisendurskoðun en samt á að krefjast þess af okkur þingmönnum að við tökum þeirra mál fyrir á pólitískum forsendum samtímis. Ég held að þarna komumst við að kjarna málsins í þessum málatilbúnaði öllum að við verðum að vera sjálfum okkur samkvæmt. Það er vikið að því í greinargerð hv. þm. Svavars Gestssonar að hér eru ýmis mál á döfinni en ekkert er mikilvægara fyrir hið háa Alþingi heldur en menn séu sjálfum sér samkvæmir og fylgi ákveðnum reglum þannig að traust þingsins verði ekki traðkað niður. Og ég held að það geti verið sú hætta í þessum málum vegna þess að málatilbúnaður sem við stöndum frammi fyrir, ekki vegna þessarar tillögu sem við erum að ræða hér, heldur annars málatilbúnaðar varðandi störf ráðherra að við séum að draga úr þessu trausti, að fólk geti efast um að það beri að líta til Alþingis og hafa traust þar í fyrirrúmi, þetta sé kannski of mikill leikaraskapur.