Fjáraukalög 1994

15. fundur
Miðvikudaginn 19. október 1994, kl. 15:07:01 (589)

[15:07]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Sé 0% verðbólga á Íslandi, sé spáð að hún verði 0--1% og ríkissjóður selur síðan bréf og virðist vera harla ánægður með söluna ef dæma má ummæli hæstv. fjmrh. --- á 8,3% eða 8,6% vexti eru það 7--8% raunvextir, hæstv. fjmrh., ef spáð er stöðugu gengi og stöðugleika í verðbólgu. Þannig að hæstv. fjmrh. var að hæla sér af því fyrir einni mínútu að hafa selt ECU-bréfin á um 8% raunvöxtum og segir síðan að bréfin hafi verið gefin út til að skapa fjölbreytni. Já, það er alveg rétt, hæstv. fjmrh., það var gert til þess að skapa fjölbreytni. Það var gert til að skapa þá fjölbreytni að ríkissjóður gæti selt pappíra með 8% raunvöxtum af því að ríkissjóður sjálfur var búinn að gefast upp á því að selja þá um 5% af því að enginn keypti þau eins og Húsnæðisstofnun hafði réttilega reynt.
    Svo kemur hæstv. fjmrh. og segir að vegna þess að menn eru að tala um staðreyndir, vegna þess að menn eru að tala um að gjaldeyrisvarasjóðurinn hafi minnkað um fjórðung, vegna þess að menn eru farnir að tala um það að ríkissjóður sjálfur sé farinn að selja verðbréf á 8% raunvöxtum, þá séu menn að blása eitthvað upp. Átti þögnin að leyna því hvað hér er að gerast? Var það virkilega þannig að fjmrh. byggist við því að það yrði ekki rætt um það þegar ríkissjóður væri farinn að selja verðbréf á 8% raunvöxtum? En ég vil hins vegar segja við hæstv. fjmrh. að það sem ég hef sagt um þessi mál er þó ekkert hjá því sem viðskrh. sagði í gærkvöldi. Ef einhver hefur blásið upp vantraust á vaxtastefnu ríkisstjórnarinnar þá er það sjálfur viðskrh. með yfirlýsingum sínum í gærkvöldi.