Vantraust á ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar

17. fundur
Mánudaginn 24. október 1994, kl. 22:03:21 (666)

[22:03]
     Guðjón Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur náð mjög góðum árangri á mörgum sviðum. Stjórnin tók við erfiðu búi. Fyrrv. ríkisstjórn hafði safnað gríðarlegum erlendum skuldum í góðærinu, útgjöld ríkisins hækkuðu stjórnlaust og allt stefndi í þjóðargjaldþrot á örfáum árum. Ríkisstjórnin hefur náð að snúa þessu við þrátt fyrir mikla erfiðleika vegna þorskbrests, lækkandi afurðaverðs og kreppu sem hrjáð hefur okkar heimshluta. Verðbólgan er í lágmarki, vextir hafa lækkað, atvinnulífið er að taka við sér og útgjöld ríkisins hafa verið lækkuð svo milljörðum nemur. Stjórnarandstaðan hefur brugðist við með lýðskrumi og ábyrgðarleysi, lagst gegn flestum sparnaðaraðgerðum ríkisstjórnarinnar og þvert á móti flutt hér á Alþingi mýgrút af tillögum um aukin ríkisútgjöld á þessu kjörtímabili. Vantraust á ráðherra ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar er út í hött. Ef einhver er vantrausts verður hér á Alþingi þá er það stjórnarandstaðan sem hefur sýnt fullkomið ábyrgðarleysi við úrlausn erfiðustu mála. Ég segi já.