Málefni Háskóla Íslands

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 14:07:46 (684)

[14:07]
     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þjóðin hefur ekki efni á annars flokks háskóla, eins og hér er spurt, og ekkert er þjóð eins dýrt og lélegt menntakerfi. Ég þekki heldur engan þann stjórnmálamann sem vill að í menntamálum okkar sé slegið slöku við. Umræðan sem hér er sett fram snýst um fjármagn, að Háskóli Íslands sé fjársveltur. Háskóli Íslands er æðri menntastofnun, menntastofnun sem óheftur aðgangur er að. Bara það hefur á síðustu árum haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir háskólann. Og þar, innan veggja háskólans, hefur því sjónarmiði verið hreyft að takmarka aðgang að skólanum. Minn flokkur er ekki tilbúinn að takmarka aðgang að Háskóla Íslands.
    Um alla Evrópu er því sjónarmiði að vaxa fylgi að allt ungt fólk eigi þess kost að vera í námi, í starfi, í starfsþjálfun. Allir eigi rétt á að vera virkir þátttakendur í sínu samfélagi. Það er sjálfsagt markmið okkar. Þess vegna er framhaldsmenntunin afar þýðingarmikill þáttur í lífi ungs fólks. Það má ekki leysa vanda einnar menntastofnunar með því að loka þar dyrum. Vísa ég þar til umræðunnar um að hefta aðgang að skólanum.
    Uppbygging öflugs verk- og tæknináms er mikilvæg í því samspili sem þarf að vera í menntakerfi okkar. Það vegur jafnframt þungt öflug námsráðgjöf, einnig í framhaldsskólanum og einnig í efri bekkjum grunnskóla.
    Þjóð sem hefur efni á að eyða milljörðum í milliliðakerfi landbúnaðarbáknsins óháð því hversu þjóðhagslega hagkvæmt er að viðhafa slíkar greiðslur, viðhalda slíku kerfi, sú þjóð hlýtur að hafa efni á að vera með gott menntakerfi og góðan háskóla. Stjórnmál snúast nefnilega um forgangsröðun og skiptingu takmarkaðra fjármuna, (Forseti hringir.) hvernig við verjum því sem við öflum. Okkur ber að horfast í augu við alhliða endurskoðun á forgangsröðun okkar, að hún er tímabær og það mál snýr ekki aðeins að ríkisstjórn, virðulegi forseti, það mál snýr að hv. Alþingi.