Samkomulag þingflokksformanna um mál á dagskrá

19. fundur
Miðvikudaginn 26. október 1994, kl. 13:41:08 (785)

[13:41]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Þessar umræður koma mér satt að segja talsvert á óvart vegna þess að mér var ekki kunnugt um að neitt samkomulag hefði verið gert á milli formanna þingflokka og þaðan af síður auðvitað hvers efnis það samkomulag var. Ég kom hingað í trausti þess að það ætti að ljúka þeim málum sem voru á dagskrá og þannig stóð á að það var beðið eftir einum ræðumanni í lánsfjárlagaumræðunni og þá var skotið inn Ríkisreikningi 1991 og síðan eftir að umræðu lauk um lánsfjárlög var bætt við Ríkisreikningi 1992, Bókhaldi og Ársreikningum. Tvö fyrstnefndu málin hafa verið lögð fram áður og meira að segja gengið svo langt að það hafa legið fyrir nefndarálit fyrr þannig að þau mál geta komið aftur upp á þinginu. Þetta eru gömul mál. Að hinum tveimur málunum er þegar farið að vinna í nefndinni. Það eru mál sem ég held að sé enginn ágreiningur um. Ég hafði samband við formann efh.- og viðskn. og hv. formann Alþb. og niðurstaðan varð sú að það voru engar athugasemdir gerðar. Ég hélt hins vegar áfram í trausti þess að ekkert samkomulag hefði verið gert og ég sé ekki betur en það sé fyllilega eðlilega staðið hér að þingstörfum og það er a.m.k. lágmark að viðkomandi ráðherra sé tilkynnt það ef samkomulag er um að taka ekki mál fyrir sem er á dagskrá og ráðherrann kemur til þess að mæla fyrir og ljúka. Það finnst mér vera alveg lágmark. Ég tek það jafnframt fram að varaformaður fjárln. var hér í allt gærkvöldi og fylgdist með þessum umræðum til viðbótar þeim sem ég hef þegar nefnt í minni ræðu. Þetta vil ég að komi fram. Hér er ekki verið að reyna að þvinga mál fram með neinum hætti. Þvert á móti ríkti um þetta gott samkomulag í gærkvöldi hjá þeim sem ekki vissu betur en að það væri í lagi að fara með málin í gegnum þingið í gærkvöldi, á eðlilegum tíma að sjálfsögðu.