Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 15:07:35 (849)

[15:07]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er ljóst að við hv. 3. þm. Reykv. munum ekki verða sammála um þetta mál.

En ég held að það sé ómaksins vert að rifja það upp aftur, sem hv. þm. er raunar auðvitað fullkomlega ljóst, að staða okkar og staða Norðmanna innan Alþjóðahvalveiðiráðsins var auðvitað í grundvallaratriðum ólík vegna þess að við á sínum tíma kusum að mótmæla ekki hvalveiðibanni Alþjóðahvalveiðiráðsins. Þess vegna var okkar staða öll miklu veikari og erfðari. Ég er alveg sammála hv. þm. um það að hefðum við haft sömu stöðu og Norðmenn þá værum við ekkert að deila um þessi atriði hér og þá hefði sjálfsagt aldrei komið til úrsagnar okkar úr Alþjóðahvalveiðiráðinu. Ég er hins vegar alveg sannfærður um það að það virðist vera orðið fullreynt að við náum árangri innan Alþjóðahvalveiðiráðsins meðan ráðið starfar með þeim hætti sem það virðist enn þá gera. Þess vegna sé ég ekki að það geti verið rök fyrir okkur að fara að rjúka inn í Alþjóðahvalveiðiráðið, þó með einhverjum fyrirvörum sé, nema það liggi fyrir miklu betur en það gerir í dag með hvaða hætti við getum náð þessum árangri, sem hv. þm. og við hv. þm. erum alveg sammála um, að það þurfi að hefja hér hvalveiðar.
    Ég svaraði því rækilega í fyrra andsvari mínu hver þjóðréttarleg staða NAMMCO er og ég hvika ekkert frá því. Ég held að það sé augljóst mál að við eigum auðvitað miklu meiri samleið með þeim þjóðum sem þar starfa heldur en með þessu kraðaki þjóða sem starfar innan Alþjóðahvalveiðiráðsins og starfa þar á mjög hæpnum forsendum margar hverjar. Þess vegna tel ég að það sé miklu vænlegri og líklegri leið að við getum náð okkar markmiðum innan NAMMCO á þeim þjóðréttarlegu forsendum sem ég rakt hér áðan heldur en í þessum hæpnu samtökum, Alþjóðahvalveiðiráðinu, sem eru komin langt frá uppruna sínum og eru komin það fyrir löngu síðan.