Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 16:07:53 (866)


[16:07]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Ég mun koma að nokkrum atriðum sem mér vannst ekki tími til að ræða um í máli mínu áðan en ég mun einnig snúa máli mínu að ákveðnum þætti EES-umræðunnar og umfjöllunarinnar sem kom hér fram hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. Ég hefði þar af leiðandi viljað biðja hæstv. forseta að athuga hvort hv. 1. þm. Norðurl. v. er í húsinu, en ég óska eftir því að hann hlýði á mál mitt að því er þetta varðar.
    ( Forseti (GHelg) : Ég hygg að það sé það sé nokkuð öruggt að hv. 1. þm. Norðurl. v., var það ekki sá þingmaður sem um var að ræða, sé í húsinu og ég skal biðja um að hann verði sóttur.)
    Hv. þm. Páll Pétursson er sá sem ég hefði viljað að hlýddi á athugasemdir mínar um umfjöllun um EES-málið.

    Virðulegi forseti. Eins og ég kom að áðan þá tel ég að Evrópusambandið í þeim farvegi sem það er nú sé á marga lund illa til þess fallið að glíma við þau miklu vandamál sem upp hafa komið eftir að Sovétríkin hrundu og augljóst var í hvílíkri upplausn mörg Mið-Evrópu- og Austur-Evrópuríkin eru. Það hefur komið í ljós m.a. á þeim vettvangi sem ég hef verið svo hólpinn að kynnast, en það er RÖSE-vettvangurinn, að mjög lítil áhersla er lögð þar á efnahagssamstarf Evrópuríkjanna, einkum og sér í lagi annars vegar ESB-ríkjanna og hins vegar Austur-Evrópu. Að vísu kemur það margsinnis í ljós að Evrópusambandið vill gjarnan veita efnahagsaðstoð og tæknilega aðstoð en sambandið hefur hins vegar kosið að loka á bein viðskipti við Austur-Evrópuríkin og beita þessi ríki þvingunum. ESB hefur þar af leiðandi ekki sótt í sinn gamla hugmyndabanka um efnahagssamvinnu sjálfstæðra ríkja þegar sambandið hefur freistað þess að móta stefnu sína gagnvart Austur- og Mið-Evrópu. Það má kannski með vissum hætti segja að Evrópusambandið sé nú frumkvöðull í því verki að reisa nýjan múr milli sín og Austur-Evrópu með viðskiptastefnu sinni gagnvart Austur-Evrópuríkjunum. Evrópusambandið hefur kosið að verja sig gegn innflutningi frá þessum löndum með innflutningshöftum. Eins og málin standa nú þá hrakar efnahag ákveðinna ríkja, stórra ríkja, sem áður voru voldug ríki í þessum heimshluta, m.a. vegna afstöðu Evrópusambandsins. En upplausn efnahagsmála í þessum heimshluta er jafnframt langmesta ógn við öryggi og frið í Evrópu nú um þessar mundir, langmesta ógnin, og innan RÖSE er ekki fjallað um þennan vanda í samræmi við alvöru hans en það verð ég að viðurkenna og er ljúft að viðurkenna það að hæstv utanrrh. hefur sjálfur í ræðu lagt mikla áherslu á þennan þátt málsins, þ.e. efnahagsþáttinn, sem mér hefur hins vegar fundist að Evrópusambandið vanrækti.
    Það er mjög erfitt að sjá fyrir sér varanlegan samstarfsgrundvöll Evrópuríkjanna í heild, allra Evrópuríkjanna á grundvellinum sem Evrópusambandið starfar nú á. Ég tel því óhjákvæmilegt að sambandið þróist í átt til meiri opnunar og að mínu mati hentar sú djúpa hugsun frumkvöðla Evrópubandalagsins að efnahagssamstarf sjálfstæðra þjóðríkja tryggi best öryggi og frið í Evrópu. Þessi djúpa hugsun hentar vel þessu fjölbreytilega og frjósama samfélagi sem þrífst í Evrópu. Ef sá tími kemur að Evrópusambandið breytir áherslum sínum, fórnar þessari hugsjón að bræða saman Evrópuríkin, bandalagsríkin, þá hygg ég að sú staða kunni að koma upp að við getum rætt hér í fullri hreinskilni og einlægni um möguleika okkar á að gerast aðilar að þessu sambandi.
    Ég vil nú víkja hér máli mínu að því sem kom fram í máli hv. 1. þm. Norðurl. v., Páls Péturssonar, þegar hann lýsti því í hverju helstu meinbugir á EES-samningnum hafi verið fólgnir. Hann sagði að í þessum samningi hefði falist hættulegt fullveldisafsal og stjórnarskrárbrot. Ég vil minna á það hér og nú að í umfjölluninni um þennan samning, og ekki síst þegar hann var kominn á lokastig, féllu mjög þung orð í garð okkar stjórnarþingmannanna, stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar, fyrir að standa að þessum samningi. Við vorum sakaðir um það, m.a. af hv. þm. Páli Péturssyni, að standa að stjórnarskrárbroti. Slík ásökun þótti mér mjög alvarleg og ég tók hana mjög nærri mér. Ég hafði, eins og hv. þm. Páll Pétursson gerði sjálfur, undirritað drengskaparheit um að halda í heiðri stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.
    Í þessum umræðum var því að sjálfsögðu haldið fram að við þingmenn stjórnarflokkanna sem stóðum að samkomulaginu um Evrópska efnahagssvæðið hefðum ekki haft í heiðri stjórnarskrá landsins og brotið drengskaparheit okkar. Slíkar ásakanir eru ekki léttvægar. Slíkar ásakanir er ekki hægt að setja fram af neinni léttúð og hygg ég að engum þingmanni hér á hinu háa Alþingi dytti í hug að koma fram með ásakanir af þessu tagi af léttúð.
    Í þessari umræðu var hvað eftir annað óskað svara við því hvort þeir þingmenn sem töldu að í EES-samningnum væri fólgið stjórnarskrárbrot mundu í samræmi við málflutning sinn gangast fyrir því ef þeir kæmust í valdaaðstöðu aftur að segja samningnum upp sem var hin eina eðlilega og rökrétta afstaða sem þeir gátu tekið. Þeir skirrtust við að svara því. En nú er svarið komið því að það kom fram hjá hv. þm. Páli Péturssyni að hann mundi ekki leggja til að samningnum yrði sagt upp. Þessi yfirlýsing kemur mér á óvart vegna þess að sá hv. þm. sem hefur lýst því yfir hér að þingið hafi gengið fyrir samningnum, samþykkt stjórnarskrárbrot þar með, heldur því jafnframt fram að þingið hafi brotið drengskaparheit sitt og mér er ekki ljóst hvernig slíkur hv. þm. ætlar að halda áfram störfum á Alþingi án þess að lagfæra þessi mál. Sjálfur var ég aldrei þeirrar skoðunar að EES-samningurinn hefði brotið stjórnarskrána. Ég hafði því góða samvisku þegar ég greiddi honum atkvæði. En mér sárnuðu þessi ummæli vegna þess að ég hef hingað til gert mikið með það sem menn hafa sagt hér úr þessum ræðustól og litið svo á að það væru alvöruorð sem hér væru látin falla, ekki síst um stjórnarskrá landsins og drengskaparheit þingmanna. Ég verð því að segja eins og er að mér kom þessi yfirlýsing á óvart og ég hefði satt best að segja gjarnan viljað fá svar við því hvernig hv. þm. Páll Pétursson ætlar sér að fá það til að koma heim og saman að hann telji EES-samninginn vera stjórnarskrárbrot en telji sér ekki jafnframt skylt að berjast fyrir því að samningnum verði sagt upp.