Staða garðyrkju- og kartöflubænda

21. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 15:13:00 (894)


[15:13]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Það er rétt sem fram kom í ræðu hv. fyrirspyrjanda að staða garðyrkjubænda hefur verið erfið og er erfið ef maður lítur á stéttina sem heild en það er á hinn bóginn ekki nýtilkomið og er gamall slóði sem þessi atvinnugrein hefur dregið á eftir sér.
    Ef við víkjum að því sem hv. þm. nefndi fyrst þá er það lækkun sjóðagjalda. Í dag greiða garðyrkjubændur 1,525% í svokölluð búnaðarmálasjóðsgjöld. Sundurliðun að ráðstöfun gjaldanna er sú að til Búnaðarfélagsins rennur 0,075%, Stéttarsambands bænda 0,25%, búnaðarsambanda 0,5%, búgreinafélaga 0,5%, Stofnlánadeildar landbúnaðarins 0,2%. Þannig að í grófum dráttum renna sjóðagjöldin til félagskerfis og leiðbeiningarþjónustu bænda og það er þá auðvitað undir þeim komið hvort þeir treysti sér til að lækka þessi gjöld.
    Samkvæmt lögum um Búnaðarmálasjóð er skylt að innheimta a.m.k. 0,075% til búgreinafélaga en þau geta óskað eftir að það hlutfall sé hækkað. Hér fá þau 0,5% eins og ég sagði.
    Samband garðyrkjubænda er eitt þeirra félaga sem hefur óskað eftir slíkri hækkun. Illframkvæmanlegt er að haga innheimtu sjóðagjalda eftir innflutningstímabilum en óheimilt er að leggja gjöld á innflutt grænmeti. ( JGS: Getur ráðherra ekki talað hærra?) Ég hélt það væru hljóðnemar í þinghúsinu.
    Auðvitað kemur til álita, eins og ég sagði áðan, að frekar heldur en að fara eftir innflutningstímabilum að lækka sjóðagjöldin en bændur munu þá sjálfir hafa frumkvæði að því og það er heimilt að vissu marki samkvæmt lögunum. Eins og ég sagði þá renna þessi sjóðagjöld til félagskerfis og leiðbeiningarþjónustu bænda. Af þessum 1,525% renna 1,325% til félagskerfis og leiðbeiningarþjónustu en 0,2% búnaðarmálasjóðsgjaldanna renna til stofnlánadeildarinnar auk 2% jöfnunar- og neytendagjalds. Ef metin er staða garðyrkjunnar innan stofnlánadeildarinnar þá hefur það verið metið svo að til garðyrkjunnar hafi runnið meira fé en hún hefur lagt inn í stofnlánadeild.
    Spurt var um afnám tolla á rekstrar- og fjárfestingarvörum til garðyrkju. Það mál var tekið upp við fjmrn. og ég veit ekki betur en það hafi gengið fram.
    Spurt var um endurgreiðslu söluskatts og tolla á gamalli fjárfestingu í garðyrkju frá þeim tíma sem söluskattskerfið var við lýði en virðisaukaskattur ekki tekinn upp. Þetta mál var tekið fyrir hjá fjmrn. og erindinu svarað með bréfi 4. janúar sl. þar sem fram kemur að ekki séu forsendur fyrir slíkum endurgreiðslum að mati ráðuneytisins þar sem uppsöfnunaráhrif söluskatts séu nú orðin óveruleg og ekki fordæmi fyrir slíku.
    Þá er spurt um lækkun raforkuverðs. Þær viðræður hafa lengi verið í gangi við orkufyrirtæki og

m.a. beitti fyrrv. iðnrh., Jón Sigurðsson, sér sérstaklega í þessu máli, en það hefur ekki náðst árangur í því. Það er sterk andstaða hjá orkufyrirtækjunum gegn almennri lækkun til garðyrkjunnar umfram það sem nú er orðið. Þess í stað hafa orkufyrirtækin boðist til að lækka verðið vegna sérstakra rannsóknaverkefna í garðyrkju, en forsvarsmenn garðyrkjunnar hafa ekki talið að slíkt svaraði tilgangi. Þetta tilboð stendur enn og er hægt að taka það mál upp að nýju.
    Spurt var um heilbrigðiseftirlit með innflutningi. Eftirlitið hefur verið aukið. Nú er í gangi sérstakt átak til að útrýma meindýrum úr gróðurhúsum hér á landi sem víst þykir að borist hafi til landsins með innflutningi. Samtímis verða allar sendingar á blóma- og pottaplöntum skoðaðar í tolli. Átakið er samstarfsverkefni landbrn., RALA og bænda og verður fylgt eftir næstu ár.
    Varðandi uppruna þeirra vara sem fluttar eru inn samkvæmt cohesion-lista er það að segja að áritun á vörureikninga sem fylgja innfluttu grænmeti og blómum telst jafngildi sérstaks upprunavottorðs. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hafa ekki verið þau tilvik að uppruni varanna hafi reynst annar en gert er ráð fyrir í hinum tvíhliða samningi við Evrópubandalagið um cohesion-listana. Um endurskoðun opinna tímabila er það að segja að þau mál hafa verið í athugun í sumar. Utanrrn. hefur verið sent erindi um það mál og lögð áhersla á að það mál verði tekið upp.
    Ég biðst afsökunar á því að hafa ekki haft tóm til að svara öllum þessum sundurgreindu fyrirspurnum.