Framkvæmd jafnréttisáætlunar

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 16:24:44 (925)


[16:24]
     Árni M. Mathiesen :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hefja máls á þessu máli á Alþingi. Það er hins vegar ekki auðvelt að ræða málefni einstakra starfsmanna í fyrirspurnatíma í örstuttum ræðum en það er ljóst af fréttum í fjölmiðlum að hlutfallsleg staða kvenna innan lögreglunnar er ekki góð. Ein af skýringunum sem gefin hefur verið í fjölmiðlum af hálfu lögreglumanna er sú að lögreglukonum hefur ekki verið gefinn kostur á því að starfa í hlutastarfi. Ég hef fregnað það að í nágrannalöndum okkar á Norðurlöndum séu í gildi reglur um það að lögreglukonum, sem eiga börn yngri en 12 ára, sé gert kleift að starfa í hlutastarfi og að það hafi leitt til þess að konum hafi fjölgað innan lögreglunnar.
    Ég vildi beina því til hæstv. dómsmrh. að hann kannaði það hvort ekki væri mögulegt að hafa einhverjar svipaðar ráðstafanir hér á landi.