Dreifing pósts og skeyta á landsbyggðinni

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 16:37:52 (929)


[16:37]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Spurt er um hvaða reglur gildi hjá Pósti og síma um póstdreifingu á landsbyggðinni. Póstur og sími svarar svo:
    Pósti er víðast hvar á landsbyggðinni dreift af landpóstum þrisvar í viku. Á fáeinum stöðum er pósti dreift oftar eða allt að fimm sinnum í viku. Þó er pósti á örfáum stöðum sem búa við lakastar samgöngur dreift tvisvar í viku.
    Spurt er: Hvaða reglur gilda hjá Pósti og síma um skeytaútsendingar á landsbyggðinni? Því svarar Póstur og sími svo:
    Símskeyti eru á landsbyggðinni send út með landpóstum. Áður er þó efni þeirra kynnt viðtakendum símleiðis eftir því sem unnt er.
    Í þriðja lagi er spurt: Hver er mismunur á dreifingu pósts og skeyta í þéttbýli og dreifbýli? Svar:
    Mismunur á dreifingu pósts og skeyta í þéttbýli og dreifbýli er sem hér segir: Í þéttbýli er almennum bréfapóstsendingum og tilkynningum um bókfærðar sendingar, böggla, ábyrgðarbréf, póstávísanir o.s.frv. dreift af bréfberum að jafnaði fimm sinnum í viku alla virka daga nema laugardaga. Símskeytum er ýmist dreift af bréfberum eða af sérstökum sendimönnum. Í dreifbýli er símskeytum og öllum pósti, jafnt almennum bréfapóstsendingum sem bókfærðum sendingum, dreift af landpóstum tvisvar til fimm sinnum í viku eins og fyrr segir. Þá eru símskeyti borin út um helgar á þeim stöðum þar sem símaafgreiðslur eru opnar, en það er í Reykjavík, fyrir höfuðborgarsvæðið, á Ísafirði, Siglufirði, Akureyri, Höfn í Hornafirði og Vestmannaeyjum. Á öðrum stöðum er símaafgreiðsla aðeins opin um helgar á fermingardögum og stundum raunar ef sérstakt tilefni gefst til.
    Um framkvæmd framangreindrar þjónustu gilda ákvæði reglugerðar um póstþjónustu, nr. 161 30. mars 1990, kafli 4.5. og 39. gr. reglna um ritsíma- og talsímaafgreiðslu frá 1. okt. 1963. Um nánara skipulag og fjölda útburðardaga fer eftir ákvörðum Póst- og símamálastofnunar hverju sinni.
    Sú reglugerð sem hér er vitnað til um útburð og afhendingu símskeyta er í 20 töluliðum með smáu letri. Eins eru hér upplýsingar um telexþjónustu sem sjálfsagt er að gefa hv. þm. til glöggvunar á þessu efni.
    Annars vil ég segja það um Póst og síma almennt að ég tel nauðsynlegt að aðgreina Póst og síma fjárhagslega og tel raunar að það verði að breyta stofnuninni í samræmi við það sem er að gerast í löndunum í kringum okkur og óhjákvæmilegt er með hliðsjón af þeirri alþjóðlegu samkeppni sem upp er komin á þessum vettvangi, breyttri tækni í sambandi við fjarskipti og þar fram eftir götum.