Verslunarálagning matvæla

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 17:05:03 (940)


[17:05]
     Fyrirspyrjandi (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskrh. svar hans og sérstaklega þó það að hann skuli vilja bæta úr því að engar upplýsingar liggi fyrir um þetta og leggja áherslu á að þeirra verði aflað. Það má benda á í sambandi við heildsölustig að það fer nú vaxandi að smásöluverslanir flytji vörur sínar beint frá útlöndum. Það á að sjálfsögðu bæði við um stórmarkaðina sem hér eru, en einnig er það í vaxandi mæli hjá smærri verslunum, sem þá að einhverju leyti taka sig saman um það og fá gámana beint erlendis frá.
    En sérstaklega vildi ég ítreka það sem ég sagði hér áðan að það er fleira en bein álagning sem skiptir máli, það eru einnig önnur kjör. Að sjálfsögðu eru það greiðslukjör og svo einnig ábyrgð. Og ef það er svo, eins og hæstv. landbrh. sagði um blóm og grænmeti og ég hef reyndar heyrt áður, að það eru innlendu framleiðendurnir sem verða að bera ábyrgð á því sem ekki selst en hins vegar verslanirnar á því innflutta, þá er augljóst að með álagningu á innlendu framleiðsluna er líka verið að greiða áhættuna af innflutningnum. Þannig að það er ekki aðeins prósentutalan sem þarna skiptir máli heldur kjörin að öðru leyti. Ég vænti þess að í þeirri athugun sem hæstv. ráðherra hefur lofað að beita sér fyrir verði þetta atriði einnig tekið til skoðunar.