Aðstaða nemenda við Fjölbrautaskólann í Breiðholti

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 17:40:49 (956)

[17:40]
     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Hæstv. forseti. Í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti eru nú liðlega 1.500 nemendur í dagskóla og 800 í kvöldskóla eða alls 2.300 manns. Þess utan eru 120 kennarar. Samkvæmt viðmiðunarreglum er gert ráð fyrir að 10--12 m 2 séu á nemanda. Skólinn er um 10.000 m 2 og hefur því hver nemandi um liðlega 6 m 2 til umráða ef svo mætti segja. Upphaflega var gert ráð fyrir því að smiðjur fyrir skólann væru þrjár, hver um 1.000 m 2 . Enn hefur ekki nema ein risið. Lausleg áætlun um byggingu nýrrar smiðju er um 60--80 millj. kr. Þá er rétt að geta íþróttahúss fjölbrautaskólans. Þegar það var í byggingu voru engar aðrar framkvæmdir heimilaðar en nú eru deildar meiningar um það hver eigi þetta ágæta íþróttahús, ríkið eða Reykjavíkurborg, og hefur í nokkur skipti komið upp sá skilningur að það sé ríkið sem eigi þetta hús og í annan stað er það Reykjavíkurborg þannig að eitthvað er hér á ferðinni mál sem þarf að taka betur á.
    Ég hef lagt fsp. til menntmrh. um aðstöðu nemenda við Fjölbrautaskólann í Breiðholti sem hljóðar svo:
    ( Forseti (VS) : Hæstv. menntmrh.)
hæstv. menntmrh., og hún hljóðar svo:
  ,,1. Hver eru áform ráðherra varðandi það óviðunandi ástand sem nú ríkir við Fjölbrautaskólann í Breiðholti þar sem nú eru um 1.500 nemendur í dagskóla sem eingöngu er ætlaður 1.000--1.200 nemendum?
    2. Er ætlunin að bæta aðbúnað nemenda á sviði matvælaiðnaðar?
    3. Hvað líður áformum um frekari byggingarframkvæmdir, t.d. þeim sem gert var ráð fyrir til að hýsa járniðnaðar- og trésmíðabraut?``