Málefni sumarhúsaeigenda

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 18:30:47 (974)


[18:30]
     Félagsmálaráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga eru fasteignaskattar einn af tekjustofnum sveitarfélaga og eru þeir lagðir á fasteignir án sérstakra kvaða um veitta þjónustu af hálfu sveitarfélaga til handa fasteignaeigendum. Sumarhús eru ekki undanþegin álagningu fasteignaskatta.
    Samkvæmt núgildandi lögum er sveitarfélögum ekki skylt að veita sumarhúsaeigendum nánar tilgreinda þjónustu nema að því er varðar brunavarnir. Hins vegar er í hinum ýmsu lögum að finna heimildir til handa sveitarfélögum til að sjá um ýmiss konar þjónustu, t.d. rekstur vatnsveitu, lagningu holræsis og sorphirðu. Innan starfshóps sem félmrh. skipaði til að yfirfara málefni sumarhúsaeigenda var töluvert rætt um hvaða þjónustu sveitarfélögum ber að veita sumarhúsaeigendum í stað þeirra fasteignaskatta sem lagðir eru á þá. Fram komu hugmyndir um að setja í reglugerð ákvæði um hvaða þjónustu sveitarfélögum er skylt að veita sumarhúsaeigendum og að sveitarfélög ,,eyrnamerki`` þann hluta fasteignaskatts sem greiddur er af sumarhúsum og hann sé notaður í þágu þeirra sérstaklega.
    Ljóst er að í sumum sveitarfélögum er fasteignaskattur sem sumarhúsaeigendur greiða stór hluti af þeim tekjum sem þau hafa í heild af fasteignasköttum. Því kom fram sú hugmynd innan starfshópsins að sett verði ákvæði í lög um tekjustofna sveitarfélaga þess efnis að ef sveitarfélög leggja fasteignatengd þjónustugjöld á sumarhúsaeigendur þá verði sveitarfélögunum heimilt að lækka álagðan fasteignaskatt sumarhúsaeigendanna sem því nemur. Með þessu móti verður sumarhúsaeigendum frekar ljóst hvaða þjónustu þeir fá frá viðkomandi sveitarfélagi í stað þeirra gjalda sem innt eru af hendi.
    Fulltrúi sumarhúsaeigenda í starfshópnum lagði hins vegar mikla áherslu á að í slíku lagaákvæði yrði kveðið á um skyldu sveitarfélaga en ekki heimild svo að þessu markmiði yrði náð. Ekki náðist samstaða innan starfshópsins um niðurstöðu í þessu máli en lagt var til af hálfu hans að þessi atriði varðandi lækkun fasteignaskatta yrðu skoðuð ítarlega næst þegar lög um tekjustofna sveitarfélaga verða tekin til endurskoðunar því breytingar á reglum laga um tekjustofna sveitarfélaga krefjast mun ítarlegri skoðunar en unnt var að láta fara fram í áðurgreindum starfshóp.
    Starfshópurinn lagði hins vegar til að tveimur atriðum er varða sumarhúsaeigendur yrði beint til umhvrh. Annars vegar nánar tilgreindar breytingar á skipulags- og byggingarreglugerðum varðandi gögn sem liggja eiga fyrir þegar sótt er um byggingarleyfi fyrir sumarbústað. Hins vegar að á hans vegum yrði könnuð hugsanleg skylda sveitarfélaga til að veita sumarhúsaeigendum sorphirðuþjónustu í stað heimildar samkvæmt núgildandi lögum. Á meðan á vinnu fyrrgreinds starfshóps stóð kom í ljós að stór hluti vanda sumarhúsaeigenda virðist vera falinn í því að ekki hefur ætíð verið farið eftir þeim samningum sem þeir hafa gert við landeigendur. Oft á tíðum hefur einnig í slíkum samningum verið kveðið á um þjónustu sem ætlast var til að viðkomandi sveitarfélag veitti en það sveitarfélag kom hins vegar hvergi nálægt umræddri samningsgerð.
    Fjöldi sumarhúsa hefur aukist mjög á undanförnum árum. Hefur það haldist í hendur við flutning fólks úr dreifbýli í þéttbýli svo og aukinn frítíma fólks. Þessi þróun hefur verið svo ör að þess hefur e.t.v. ekki verið gætt nægjanlega að tryggja eðlilega skipan þessara mála með viðeigandi breytingum á lögum og reglugerðum. Ég held að það sé einkanlega tvennt sem á skortir. Í fyrsta lagi að tryggja sumarhúsaeigendum tiltekna þjónustu fyrir þær greiðslur sem þeir inna af hendi til sveitarfélaganna. Í öðru lagi að koma betra lagi á skipulags- og byggingarmál varðandi sumarhús og að tryggja með einhverjum hætti nauðsynlega samvinnu sumarhúsaeigenda á samliggjandi svæðum.
    Ég er tilbúinn að leita lausna á þessum atriðum sem auðvitað verður að gerast í samvinnu við sveitarfélögin. Nú stendur yfir endurskoðun á ákveðnum þáttum laga um tekjustofna sveitarfélaga. Ég hef óskað eftir að þessi mál verði tekin til sérstakrar athugunar við þá endurskoðun svo að ákveðnar vonir megi binda við að við sjáum þessi mál fara í rétta átt fram á þann veg sem ég hef hér áður gert grein fyrir.