Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 16:56:36 (996)


[16:56]
     Jóhanna Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í frv. því sem hér er til umræðu um grunnskóla er meginmarkmið þess flutningur alls reksturs grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga. Það er ljóst að um það mál eru nokkuð skiptar skoðanir og því er það mjög mikilvægt ef samstaða á að nást um þetta frv. hér á hv. Alþingi að ýmsir grundvallarþættir liggi ljósar fyrir en fram kemur í þessu frv. Ég tel að það sé mjög brýnt að það sé mörkuð heildstæð stefna í málefnum grunn- og framhaldsskóla og markmiðin séu skýr. Það skiptir vissulega máli að skipulag kennslunnar og innra starf skólans sé með þeim hætti að sjálfstæði skólanna sé sem mest og að fagleg sjónarmið ríki á öllum sviðum og ekki síst að allir geti notið jafnréttis til náms óháð búsetu og aðstöðu og að sérfræðiþjónusta við skóla sé tryggð fyrir þá sem við námsörðugleika eða fötlun búa.
    Veigamikill þáttur í starfi skólans eru einnig tengsl og samráð milli heimila og skóla og að áhrif foreldra á allt skólastarfið séu markviss og aukin eins og kostur er sem ég fagna að stefnt er að með þessu frv. Nú þegar fyrir dyrum stendur að flytja grunnskólann alfarið yfir til sveitarfélaga er brýnt að þannig sé staðið að málum að ekki sé dregið úr gæðum skólastarfsins og að tryggt sé að hvergi sé hætta á að slakað verði á markmiðunum um jafnrétti allra til náms og að fjárhagslegar undirstöður séu tryggðar varðandi markmið sem þessi löggjöf á að fela í sér. En ástæða er til að hafa áhyggjur varðandi alla þessa þætti. Ljóst er að þar sem ekki hefur náðst stærri áfangi í stækkun sveitarfélaganna þá muni þau vera mjög misjafnlega í stakk búin til að taka alfarið yfir rekstur grunnskólans og því nokkur hætta á að gæði kennslunnar og markmiðin um jafnrétti til náms séu í hættu ef löggjöfin er ekki afdráttarlaus í því efni og fjárhagslegur grundvöllur traustur. Í frv. er sett það markmið allir grunnskólar skuli vera einsetnir og það markmið náist árið 2001 og í samræmi við þá stefnu er kennslustundafjöldi nemenda aukinn.
    Lauslegir útreikningar sem gerðir voru á sl. ári af Sambandi ísl. sveitarfélaga sýndu að til að ná markmiðum um einsetinn skóla yrði kennslustofum að fjölga um 500--600 á landinu öllu, mest þó í Reykjavík og Reykjanesi eða í kringum 400 og er það í samræmi við framkvæmdaáætlun menntmrn. frá 1991 þar sem samsvarandi tölur koma fram. Heildarkostnaður við þessa fjölgun á kennslustofum var þá áætlaður tæplega 5 milljarðar kr. og til að ná markmiðunum um samfelldan skóladag þyrfti að lengja skólatíma barna 6--12 ára um 55 kennslustundir á viku. Kostnaður við hverja viðbótarkennslustund í hverjum árgangi var áætlaður um 12 millj. kr. Samkvæmt þessum útreikningum, sem ég hygg að séu samhljóða bæði hjá Sambandi sveitarfélaga og hjá menntmrn., er áætlað að viðbótarkennsla vegna samfellds skóladags sé um 600 og þarna er um tæpa 6 milljarða að ræða vegna þessa og vegna húsnæðisins. Nú vil ég spyrja hæstv. menntmrh.: Hversu víðtæk á kostnaðarþátttaka ríkisins að vera til þess að ná markmiðum sem sett eru í þessu frv.? Í því sambandi vil ég minna á að í tillögum nefndar um mótun menntastefnu frá janúar 1993 kemur eftirfarandi fram varðandi fjármálin, en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Meta verður verkefnið í heild sem sveitarfélög tækju við með tilliti til þeirra krafna sem þeim eru lagðar á herðar og fælust í lagasetningu ríkisins um skólastigið.`` Þetta er undir kaflanum um fjármál. Þetta hef ég ævinlega skilið þannig að sú löggjöf sem væri í gildi þegar tilflutningurinn ætti sér stað frá ríki yfir

til sveitarfélaga, að kostnaðarhlutdeild ríkisins yrði miðuð við það að ákvæðin kæmust að fullu til framkvæmda. Og jafnvel þó að þetta yrði gert í áföngum með einsetinn skóla, þá mundi kostnaðarþátttaka ríkisins taka mið af því og koma þannig í áföngum. Ég hygg að hér sé um mjög mikilvæga spurningu að ræða sem ég óska eftir að hæstv. ráðherra svari vegna þess að þá má skilja það svo að ekki sé samræmi í þessu áliti nefndar um mótun menntastefnu.
    Í skýrslu menntmrn. um tilfærslu grunnskóla til sveitarfélaga um mat á kostnaði frá því í september 1994 kemur fram varðandi tekjustofna: ,,Starfshópurinn er sammála um að við yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaga skuli tekjustofnaflutningur miðast við gildandi grunnskólalög.`` Hvað er átt við hér með ,,gildandi grunnskólalög``? Eru það grunnskólalög sem gilda í dag eða er það þetta frv. sem við erum að fjalla um? Mér þykir mjög mikilvægt að það liggi fyrir að enginn misskilningur sé í þessu efni vegna þess að í umsögn t.d. Sambands ísl. sveitarfélaga finnst mér mjög skýrt að þeir ætla að miðað sé við það frv. sem við erum að fjalla um og að ríkið taki þá þátt í kostnaði við einsetningu skólans eins og ég hef alltaf staðið í meiningu um að gert yrði.
    Í áliti Sambands ísl. sveitarfélaga kemur fram, með leyfi forseta, í athugasemdum við einstakar greinar að frv. feli í sér að grunnskólinn skuli vera einsetinn. Í ákvæðum til bráðabirgða er gert ráð fyrir að því markmiði verði náð árið 2000. Bráðabirgðaákvæði þarf að orða skýrar og gera ítarlega kostnaðaráætlun um hvernig að því verði unnið jafnframt því sem sveitarfélögunum verði tryggðar tekjur til að standa undir þeim kostnaði sem því er samfara.
    Það er því alveg ljóst að þetta er skilningur Sambands ísl. sveitarfélaga þannig að það er mjög mikilvægt hvort við erum hér að ræða um yfirtöku yfir til sveitarfélaganna sem er upp á 5--6 milljarða eða hvort við erum að ræða hér yfirtöku upp á 12 milljarða ef einsetinn skóli er hérna inni þannig að ég bið um skýr svör, hæstv. ráðherra, við þessu. Reyndar væri ágætt að fá líka fram afstöðu formanns nefndarinnar til þessa máls sem hér er í salnum, hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur, vegna þess að hún skrifar undir þetta álit um fjármálin sem ekki verður skilið á annan hátt en þann að það eigi að miða við kostnaðinn eins og hann liggur fyrir þegar þetta frv. hefur orðið að lögum.
    Það er ekki að sjá t.d. í áliti fjmrn. að þeir geri ráð fyrir þessari hugsun eins og ég hef hér lýst því að af áliti fjmrn. sem fylgir frv. sýnist svo ekki vera, en þeir áætla kostnaðinn í heild 680--910 millj. en leggja að vísu áherslu á að kostnaðaráhrif frv. geti orðið mun meiri en þessar tölur segja til um. Að auki er alls óljóst eins og reyndar hefur komið fram hér í þessari umræðu hvaða kostnað sveitarfélögin munu hafa vegna áunninna lífeyrisréttinda við yfirtökum á launagreiðslum til kennara og skólastjóra og í heild hvað yfirtaka á öllum launagreiðslum til kennara og skólastjóra kostar. Í því sambandi má spyrja hvort mið sé tekið af auknum kennslustundafjölda og hvort miða eigi við yfirborganir og hlunnindi sem víða tíðkast nú til grunnskólakennara en í áætlunum um kostnað sveitarfélaga vegna ýmissa þátta eins og húsnæðishlunninda, flutningastyrkja, staðaruppbótar og fleira var áætlað að sá kostnaður væri milli 200 og 300 millj. á árinu 1992.
    En það verður að segja eins og er að mjög erfitt er að fjalla um ákvæði þessa frv. nema samhliða liggi fyrir frv. um hvernig breyta eigi tekjustofnum sveitarfélaga og hvernig Jöfnunarsjóður sveitarfélaga kemur inn í fjármögnunina. Ég spyr hæstv. menntmrh. að því: Hvað liggur fyrir um þetta efni? Er samstaða um það milli ríkis og sveitarfélaga hvað stór hlutur fer til jöfnunar inn í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga? Áætlað var á sínum tíma að það væri ekki minna en 20% af fjárhæðinni sem þyrfti að renna til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við flutning þessa verkefnis yfir til sveitarfélaganna og ef hugmyndin er að þetta komi úr staðgreiðslunni, þ.e. að hækka útsvarið geri ég þá ráð fyrir til að mæta útgjöldum sveitarfélaga, er þá tryggt að samsvarandi lækkun verði á tekjuskatti á móti? Ég spyr enn fremur: Hvenær verður lagt fram frv. um þetta efni og hvenær verður útfærslan um viðmiðanir og rétt til framlaga úr Jöfnunarsjóði klár þannig að hv. Alþingi fái þennan mikilvæga þátt málsins til meðferðar? Það er mjög erfitt fyrir okkur að vera að fjalla bara um aðra hliðina á þessu máli sem eru réttindi sem við erum að gefa fólki og breyta grunnskólalögum og tryggja betri skóla með þessum ákvæðum ef við höfum ekki hina hliðina sem er undirstaðan undir þetta allt sem er fjármögnunin. Þess vegna er mjög erfitt, hæstv. menntmrh., að Alþingi fjalli bara um aðra hlið þessa máls.
    Ég spyr hvort það sé satt sem ég hef heyrt að það standi til að hér verði aðeins lagt fyrir Alþingi fjármögnun til bráðabirgða til næsta árs en að öðru leyti verði málið skilið eftir raunverulega varðandi frambúðarfjármögnun. Ef svo er, þá tel ég að málið sé skilið eftir í algjöru uppnámi. Ég bið því hæstv. ráðherra að tjá sig ítarlegar um fjármögnun á frv. við þessa umræðu málsins.
    Það er alveg ljóst að einn af mikilvægustu þáttum frv. er að yfirfærslan gerist líka í góðu samkomulagi við kennarastéttina, en kjör þeirrar stéttar eru orðin verulegt áhyggjuefni, ekki síst þegar við setjum okkur háleit markmið um gæði og kröfur til skólastarfsins og kennarastéttarinnar.
    Ég vil draga fram annan þátt þessa máls nú þegar stefnt er að því að skólinn verði einsetinn. Sums staðar hefur þessum mikilvæga áfanga verið náð að skólinn er einsetinn, en maður spyr sig: Hefur það tekist sem skyldi? Hvert er mat hæstv. menntmrh. á þeim árangri sem náðst hefur? Hefur skipulagið verið með þeim hætti að einsetinn skóli, þar sem því markmiði hefur verið náð, hafi skilað tilætluðum árangri? Þó við höfum húsnæði fyrir hendi til að tryggja einsetinn skóla, þá er það ekki nóg. Við erum ekki komin með einsetinn skóla þó við höfum nægjanlegt húsnæði. Það þarf líka að fylgja að innihald skólastarfsins samræmist þeim markmiðum sem við viljum ná. Þar þarf vinnutími kennara og skipulag á þeirra starfi að fara saman við einsetinn skóla og þar skilst mér að misbrestur hafi orðið á. Því spyr ég hæstv. menntmrh. um þennan þátt málsins. Og hvernig metur hann árangurinn hingað til þar sem það hefur náðst fram að skólar eru einsetnir? Ef markvisst og skipulega á að fara að vinna að því að hafa skóla einsetna þá er mikilvægt að skipulag við einsetninguna og vinnutími kennara og þá kjarasamninga við þá taki mið af þeirra tillögum. Annars sýnist mér hún ekki ná þeim árangri sem að er stefnt. Þetta verður allt saman að mínu mati að haldast í hendur.
    Ég vil líka víkja að öðrum þætti í þessu frv. en þar er gert ráð fyrir að sveitarfélögin kosti námsgögn í skyldunámi og að Námsgagnastofnun skuli framvegis ekki úthluta námsgagnakvóta til skólanna heldur selja sveitarfélögunum námsgögnin. Og í áliti fjmrn. sem er fskj. með frv. kemur fram að ekki sé gert ráð fyrir að breyting verði á því fjármagni sem fer til námsgagnakaupa í heild sinni. Nú er það almennt álit bæði kennara og foreldra að mjög brýnt sé að bæta öll námsgögn og ætla má að ýmis ákvæði þessa frv. um samræmd próf og fleira geri það enn brýnna. Ég tel ástæðu til að hafa áhyggjur af því hvert stefnir í námsgagnagerðinni, bæði vegna þess að frv. gerir ráð fyrir að ekki verði breyting á því fjármagni sem fer í námsgagnagerð í heild sinni en það hefur sætt töluverðum niðurskurði og einnig hvort við þessa breytingu gæti fjölbreytileiki námsgagna orðið mismunandi frá einu sveitarfélagi til annars þegar sveitarfélögin eiga sjálf að sjá um að kosta námsgögn til skyldunáms. Það hlýtur að vera afar brýnt og nánast lykilatriði að nemendur í skyldunámi sitji við sama borð hvað þennan mikilvæga þátt varðar og að til þess sé tekið tillit við flutning grunnskólans yfir til sveitarfélaga og þá tekjustofna samfara því til sveitarfélaganna.
    Ég vil líka spyrja um einn þátt sem ég tel brýnt að fram komi og það snertir upplýsingaskyldu menntmrn. gagnvart nemendum og foreldrum þeirra. Um réttindi og skyldur nemenda og foreldra þeirra gagnvart skólanum og öfugt. Ég hef heyrt að það hafi verið mikil brotalöm á og ráðuneytið hafi ekki staðið sig sem skyldi varðandi upplýsingaskyldu sína, bæði til nemenda og foreldra.
    Það hlýtur líka að kalla á ýmsar spurningar að í frv. eru felld út ákvæði um hámarksfjölda nemenda í bekkjardeildum. Það er sjálfsagt gert í nafni þess að verið sé að auka sjálfsforræði sveitarfélaga og að ábyrgðin sé alfarið í þeirra höndum, en það gefur vissulega tilefni til að ætla að tilhneiging geti orðið kannski víða að fjölga í bekkjardeildum frá því sem lög nú kveða á um. Slík þróun er mjög varhugaverð og gefur tilefni til þess að hafa áhyggjur af því hvernig þau mál munu þróast og þá hvort gæði kennslunnar verði mismunandi eftir skólum og sveitarfélögum. Um þetta atriði spyr ég sérstaklega og álit ráðherrans á því. Ég tel að hér sé um svo mikilvægt atriði að ræða sem raunar getur oft ráðið úrslitum um námsárangur barna, og raunar um áhuga nemenda almennt á skólastarfinu. Þetta ákvæði þarf að fá mjög ítarlega umfjöllun hér á hv. Alþingi og ekki síst í þeirri nefnd sem fær málið til meðferðar. Í blönduðum bekkjum er raunar mjög brýnt að fækka í bekkjum fremur en fjölga sem bæði kemur í veg fyrir vaxandi agavandamál og þá að hægt sé að hafa meiri fjölbreytni í kennslunni. En ég óttast að við stefnum í þveröfuga átt ef ekki verður sett þak á þann fjölda nemenda sem má vera í hverri bekkjardeild eða byggt sé á einhvers konar hámarksstundafjölda kennara á hvern nemanda.
    Það má vel vera að við náum því markmiði að skólar verði einsetnir með því að fjölga bara í bekkjardeildum en það er langt frá því að við náum tilskildum markmiðum með einsetnum skóla með þeim vafasama hætti. Því er afar brýnt að festa ríki varðandi þetta mikilvæga ákvæði skólamálanna. Ef við meinum eitthvað með jafnrétti til náms og að hagur barnanna verði í fyrirrúmi og tryggður hvar sem þau búa, þá er hér um mjög mikilvægan þátt málsins að ræða sem liggja verður ljós fyrir.
    Ég vil því næst víkja að öðrum mikilvægum þætti sem einmitt lýtur að jafnrétti til náms og hér hefur verið ræddur og ekki síst gagnrýndur af hv. 9. þm. Reykv., Svavari Gestssyni, og ég get tekið mjög undir það, en ég tel mjög varhugaverðan þann boðskap sem liggur fyrir í þessu frv. varðandi sérkennsluúrræði, t.d. fyrir fatlaða og þá sem eiga við námsörðugleika að etja. Ég tel að einn mikilvægasti þátturinn sem snýr að fötluðum sé jafnrétti þeirra til náms á við aðra og að við höfum skóla fyrir alla eins og talað er um en ekki bara skóla fyrir suma eins og oft er sagt. Og til þess að svo megi verða verðum við að hafa trygg örugg og markviss sérkennsluúrræði og að skipulag hins almenna skóla og fjármögnun hans verði að taka mið af þörfum þessara barna. Ég tek undir það með hv. þm. Svavari Gestssyni að það er bara allt of losaralega um hnútana búið í þessu frv. sem við fjöllum um. Og jafnvel þó að á þessu máli sé tekið í 37. gr. þá er alveg ljóst að þunginn af þessu er settur yfir í reglugerð, yfir á menntmrh. Menntmrh. á að setja ákvæði til að tryggja þessi úrræði og ég tel óviðunandi að Alþingi afgreiði málið frá sér með þeim hætti.
    Ég held að það sé alveg óhætt að segja að mikið vanti upp á að við höfum núna tilskilin úrræði í sérkennslunni og sérkennslukvótinn sem skólarnir hafa fengið verður oft margfalt undir því sem skólarnir áætla. Ég vil líka minna á að í núgildandi lögum um grunnskóla er í raun stefnumarkandi ákvæði, hæstv. ráðherra, um að hverfa frá sérskólum fyrir fatlaða og efla og styrkja sérkennsluúrræði í almennum skólum þannig að við höfum almenna grunnskóla fyrir alla en ekki bara fyrir suma. En í núgildandi lögum, ákvæði til bráðabirgða, segir, með leyfi forseta:
    ,,Til viðbótar því sem kveðið er á um í 78. og 79. gr. skulu þeir grunnskólar sem ríkið rekur fyrir fötluð börn, þ.e. sérskólar, vera reknir á vegum þess þar til grunnskólar geta veitt fötluðum nemendum

sambærilega eða betri þjónustu.``
    Núgildandi lög setja sem sagt fram skýra stefnumörkun um að hverfa frá sérskólum og koma á samskipan allra nemenda enda í samræmi við ákvæði og markmið laga um málefni fatlaðra sem kveða á um að tryggja jafnrétti fatlaðra á við aðra í þjóðfélaginu og meginreglan skuli vera þjónusta og kennsla fyrir fatlaða með sama hætti og fyrir aðra nemendur. En í þessu frv. er undirstrikað að mínu mati að sérskólar séu hluti grunnskólakerfisins sem mér finnst vera fráhvarf frá þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið og ákvæðin í frv. raunar fremur hvetjandi til að koma á og viðhalda sérskólum fyrir fatlaða. Þetta tel ég alveg afleita stefnu og tel að í öllum meginatriðum hafi blöndun fatlaðra og ófatlaðra nemenda í almennum skólum tekist vel ef undan er skilið að öflugri sérkennsluúrræði hefðu þurft að vera fyrir hendi. Samskipan fatlaðra og ófatlaðra nemenda er eðlileg og réttmæt ekki síst þar sem slík skipan mála eru þroskandi bæði fyrir fatlaða og ófatlaða nemendur og vinnur gegn vanþekkingu á fötlun sem er mjög mikilvægt.
    Máli mínu til stuðnings vil ég benda á 38. gr. frv. Þar er raunar ýtt undir sérskólana þar sem rætt er um að hugsanlega eitt sveitarfélag eða fleiri standi að rekstri sérskóla og deili rekstrarkostnaði eftir nánari reglum.
    Það eru fleiri en ég sem hafa þá skoðun að verið sé að hverfa frá samskipan og hvetja fremur til sérskólaúrræða. Ég veit t.d. að hagsmunasamtök fatlaðra hafa áhyggjur af því hvernig þetta er sett fram í frv.
    Ég tel að í núgildandi lögum um grunnskóla og reglugerð um sérkennslu sé réttur barna til sérkennslu mun betur tryggður en í þessum lögum, m.a. er kveðið á um rétt barna til sérstaks fjármagns sem notað er þeim til góða með sérkennslu sem mér sýnist að fellt sé niður. Kveðið er nú á um í frv. að réttur fatlaðra eða þeirra sem búa við námsörðugleika skuli fara fram í heimaskólum nemenda eins og frekast er kostur. --- Og það er nú það, hvað það þýðir.
    Ég óttast að með þessu frv. verði sérkennsla í grunnskólum ekki styrkt heldur sé veruleg hætta á að gengið verði í aðra átt. Það er talað um að 20% barna í grunnskólum þurfi á sérkennslu af ýmsum toga að halda og í Reykjavík einni er talað um að 2.400 nemendur þurfi á sérkennslu að halda.
    Ég tel að það megi alveg skoða það að rétt sé að setja í frv. ákveðinn fjárhagslegan ramma um umfang sérkennslu og að skyldur sveitarfélaganna í því efni séu skýrar og klárar og ótvíræðar og ekki sé hægt að ganga fram hjá þeim eða vísa þessu með einum eða öðrum hætti á reglugerð hjá ráðherra. Alþingi verður að vita hvað er verið að samþykkja í svona brýnum málum sem eru sérkennsluúrræði fyrir fötluð börn.
    Ég legg því enn og aftur, virðulegi forseti, þunga áherslu á að þetta atriði frv. fái rækilega umfjöllun í nefnd og treysti því að frá þessum málum verði ekki gengið á Alþingi nema að tryggt sé að við séum að auka og efla sérkennsluúrræði í grunnskólum en ekki að hverfa til fortíðar í því efni. Það væri bakslag í baráttu fatlaðra ef svo væri.
    Ég vil aðeins nefna það ákvæði frv. þar sem lagt er til að aukin áhersla verði lögð á samræmt námsmat í grunnskólum og kveðið á um samræmd próf í kjarnagreinum sem lögð skulu fyrir samtímis og að við lok grunnskóla skuli leggja fyrir samræmd lokapróf í a.m.k. fjórum námsgreinum. Rökin fyrir þessu eru að fá með samræmdum mælingum upplýsingar um stöðu einstakra nemenda í námi og framfarir á námsferlinum auk þess sem samræmdar mælingar veiti skólafólki og fræðsluyfirvöldum mikilvægar upplýsingar um árangur skólastarfsins. Þessi samræmdu próf eiga að gefa kennurum og skólastjórum vísbendingu um að hve miklu leyti nemendur hafa náð grundvallarfærni sem frekara nám byggir á og vera þannig leiðbeinandi um áherslur í kennslunni. Allt þetta á síðan að vera til að bregðast við og veita þeim nemendum sem ekki hafa náð lágmarksþekkingu og færni sérstakan stuðning.
    Ég skal ekkert draga úr að ákveðnir kostir geta fylgt þessu fyrirkomulagi, ekki síst könnunarprófunum, en líka veigamiklir gallar. Spurningin er hvort hér sé ekki um of einhæfan mælikvarða að ræða á getu nemenda. Það verður ekkert fram hjá því litið að með þessu er í raun verið að flokka og stimpla nemendur og ljóst einnig að slík samræmd próf segja ekki alla söguna ef þau eiga að veita leiðsögn um árangur og getu nemandans því lítið segja þau um sjálfstæði eða frumkvæði eða ábyrgð nemandans sjálfs sem skilar sér kannski ekki í samræmdum prófum.
    Það má líka minna á að samræmdu prófin eru dýr og hafa tekið mikið af tíma og fjármagni Rannsóknarstofnunar uppeldismála.
    Það er einnig ljóst að markmiðið með könnunarprófunum er að veita hlutlægar upplýsingar um námsframvindu þannig að hægt sé að grípa inn í námsferilinn með markvissum aðgerðum. Hjá þeim sem ekki ná tilskildum árangri verða sérkennsluúrræðin líka að vera til staðar sem og öflug sérfræðiþjónusta. En um bæði þessi mál finnst mér ríkja mikil óvissa samkvæmt frv. og þau vera í mikilli óvissu því ef hægt á að vera að grípa til sértækra úrræða og grípa inn í námsframvindu í kjölfar könnunarprófa eða samræmdra prófa þá verða þau úrræði náttúrlega að vera fyrir hendi og að hægt sé að grípa til þeirra.
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins, áður en ég lýk máli mínu víkja aftur að fjármögnun frv. vegna þess að það er einn mikilvægur þáttur sem ég hefði gjarnan viljað fá svör við. Hann snertir stöðu fræðsluskrifstofanna, eins og hér hefur verið komið nokkuð inn á, og stöðu starfsfólks fræðsluskrifstofanna og hvers megi vænta í því efni. Í áliti frá menntmrn. í september 1994 er nokkuð fjallað um þennan þátt varðandi

fræðsluskrifstofurnar. Þar er sagt að starfshópurinn telur eðlilegt að sveitarfélögin í umdæmi fræðsluskrifstofu komi sér saman um framtíðarfyrirkomulag og meðferð verkefna þeirra. Hópurinn bendir þó á að heppilegt geti verið að sveitarfélögin komi sér saman um að reka núverandi fræðsluskrifstofur með líkum hætti og nú er eða lítið breyttum fyrst um sinn eftir yfirtöku sveitarfélaganna á öllum grunnskólakostnaði. --- Liggur eitthvað frekar fyrir um þetta, spyr ég hæstv. ráðherra.
    Eins hef ég áhuga á að spyrja um viðhaldskostnað á skólamannvirkjum í grunnskóla. Mér hefur skilist að víða væru viðhaldsmál í nokkrum ólestri varðandi grunnskólabyggingar. Hvað er fyrirhugað varðandi yfirtökuna í því efni? Ég stoppaði við það að í áliti Sambands sveitarfélaga er aðeins farið inn á þennan þátt og nefnt, með leyfi forseta:
    ,,Með yfirtöku sveitarfélaga á sérskólum þarf að athuga vandlega og taka tillit til þeirra kostnaðaráhrifa sem slík yfirtaka hefur í för með sér. Í því sambandi má nefna rekstur, viðhald og ástand húseigna við yfirtöku og skipulag rekstrar sem er tímafrekt viðfangsefni.``
    Ég spyr hæstv. ráðherra: Liggur fyrir einhver úttekt á viðhaldskostnaði á skólamannvirkjum? Hvað er þetta eða getur orðið mikill kostnaðarþáttur? Liggur einhver úttekt fyrir á þessu efni?
    Ég held að það sé mjög brýnt að þetta liggi fyrir þannig að síðar meir verði þetta ekki deiluefni milli ríkis og sveitarfélaga.
    Virðulegi forseti. Ég get farið að ljúka máli mínu en vil segja í lokin að það er mjög mikilvægt þegar við erum að fjalla um grunnskólalögin og skipulag og kennslu grunnskólabarna og raunar grundvallaratriði að horfa á hvern þátt þessara mála, hvert ákvæði frv., út frá sjónarhóli barnsins eða nemandans. Þegar grunnurinn er lagður að skólagöngu barnanna skiptir öllu máli að vel sé til vandað og að öll kennsla og úrræði skólans miði að því að tryggja rétt og velferð barnsins og að byggja upp frumkvæði og námsgleði nemendanna og að skólinn taki mið af þörfum barnanna. Þar hefur verið mikil brotalöm, bæði varðandi aðbúnað og kjör kennara og réttindi barna og foreldra þeirra, ekki síst þegar við búum í þjóðfélagi sem gerir kröfur til þess að báðir foreldrar séu iðulega á vinnumarkaðinum.
    Mörg markmið og ákvæði þessa frv. vísa vissulega fram á veginn en þau eru því marki brennd að í ýmsum ákvæðum er vísað í reglugerðir sem ekki liggja fyrir og fjármögnun sem allt stendur og fellur með liggur ekki fyrir og er í raun á brauðfótum eins og ég hef rakið, a.m.k. ríkir um hana mjög mikil óvissa. Hér er í raun verið að gefa fyrirheit eins og um einsetinn skóla sem enginn veit hvernig á að standa að því að fjármögnunin er mjög óljós í því efni.
    Sama óvissan ríkir um hver niðurstaðan verður í réttindamálum og kjörum kennara sem mikið veltur á. Ég óttast þess vegna að þó mikil vinna hafi verið lögð í þetta mál sem við fjöllum um og hæstv. menntmrh. hafi þar góðan vilja þá er stakkurinn svo þröngt sniðinn, óvissan svo mikil um fjármögnun og hvernig fámennustu sveitarfélögin muni taka á þessu máli og hvert við erum að stefna í sérkennslumálum barna að málið er í raun vanbúið fyrir Alþingi að taka á.
    Ég hvet hæstv. menntrmh. um leið og ég ítreka þær fyrirspurnir sem ég hef lagt fyrir hann að leggja sem fyrst fyrir Alþingi hvernig standa eigi að þeim atriðum sem óvissa ríkir enn um eins og fjármögnun og réttindamál kennara. Að öðrum kosti tel ég nokkuð ljóst að engum sé greiði gerður með því að afgreiða málið svo hrátt sem það er frá hv. Alþingi.