Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 18:09:17 (1000)


  [18:09]
     Pétur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar hafi ég misskilið þetta, en tek skýringuna til greina hvað snertir greinina í staðinn fyrir frv. Ég þóttist heyra nefnt að markmið frv. væri þetta.
    En þetta dregur verulega úr þeirri ánægju sem ég hafði af dönskukennslunni og stöðu hennar, því mér finnst hv. þm. hafa tekið það algjörlega til baka að þessi forgangur dönskunnar er sem sé ekki fyrir hendi heldur þýði skilgreining á kjarnagreinum það enn og aftur, eins og ég hef reyndar tekið fram fyrr, að danskan eigi að víkja og mér finnst það miður. En þrátt fyrir að henni verði sinnt, ég vona að við það verði staðið og hef trú á því, en það þarf líka að gera betur en staðan er núna, hún er slæm, við vitum það. En mér finnst þessi stefna vera fólgin í því að setja dönskuna heldur aftar en hún er og þoka henni aftur fyrir enskuna þar sem hún er ekki skilgreind sem kjarnagrein eins og enskan er.