Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 18:52:02 (1010)


[18:52]
     Ragnar Arnalds (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra endurtekur það hér hvað eftir annað að einhvern veginn megi leysa þetta, einhvern veginn verði nú hægt að leysa þetta. En hann viðurkennir samt um leið að tekjustofnum sveitarfélaga verður ekki breytt fyrir 1. ágúst nk. og að sveitarfélögin fá ekki nýjar tekjur til að standa undir þessu nýja verkefni fyrir 1. ágúst, þ.e. ekki á árinu 1995. Og hefur hann ekki þar með viðurkennt endanlega að þetta getur ekki komið til framkvæmda á næsta ári? Ég get ekki ímyndað mér annað en hann hljóti að átta sig á því eins og allir aðrir að auðvitað ber að taka þetta dæmi inn í fjárlög ársins 1995 ef þetta á að gilda á því ári og eins verða sveitarfélögin að taka þetta inn í sínar fjárhagsáætlanir á árinu 1995 ef þetta á að gilda fyrir þau. Þannig að það vantar algjörlega botninn í þetta dæmi hjá hæstv. ráðherra.