Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 19:06:20 (1021)


[19:06]
     Finnur Ingólfsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Eins og kom fram hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni var það rætt milli formanna þingflokka á fundi með forseta að halda kvöldfund í kvöld. Einnig var talað um að ef tækist að ljúka umræðu á þeim kvöldfundi væri það afskaplega gott. En eins og hv. þm. sagði er það alveg skýrt að það kom fram af hálfu formanna þingflokkanna sem þarna voru að við töluðum um kvöldfund í kvöld en ekki næturfund. Nú hef ég ekki hugmynd um hvernig staðan er á þessari ágætu mælendaskrá hjá hæstv. forseta. Það kann vel að vera að við getum lokið umræðunni áður en við göngum inn í nóttina, það verður að koma í ljós þegar þar að kemur. Af því að hæstv. menntmrh. var á þeim fundi sem formaður, ígildi formanns sjálfstæðismanna, ítreka ég að þetta kom mjög skýrt fram. Auðvitað er málið mikilvægt og mér finnst ekki ástæða til að velta því fyrir sér á þessari stundu hvort okkur takist jafnvel ljúka umræðunni fyrir miðnætti. Það væri ágætt en fyrirvari af okkar hálfu var kvöldfundur en ekki næturfundur.