Vegaframkvæmdir á Austurlandi

24. fundur
Miðvikudaginn 02. nóvember 1994, kl. 14:06:14 (1062)

[14:06]
     Flm. (Egill Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu sem ég flyt á þskj. 37 og orðast þannig, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að hlutast til um að gerð verði áætlun um byggingu og endurbætur vega í Austurlandskjördæmi sem miðist við að koma á samfelldu vegakerfi með bundnu slitlagi eftir öllu kjördæminu, auk vega til allra þéttbýlisstaða. Áætlunin miðist við að þessum verkefnum verði lokið um næstu aldamót.``
    Ástæðan fyrir flutningi þessarar tillögu er m.a. sú að um þessar mundir eru að nást miklir áfangar í þeim fyrirheitum að hringvegurinn verði lagður bundnu slitlagi og við hann tengdir allir helstu þéttbýlisstaðir landsins. Í þessu sambandi rifjast það hér upp að þessi árangur hefur náðst í vegaframkvæmdum allt norður til Húsavíkur þegar farið er vestan og norðan lands. Hinum megin frá hefur þessi árangur náð því að komast austur á Breiðamerkursand og reyndar eru á þeirri vegáætlun sem enn er í gildi fjárveitingar til þess að ljúka við brú á Fjallsá. Það hillir þannig undir það að vel uppbyggður vegur með samfelldu bundnu slitlagi nái allt frá Höfn í Hornafirði til Húsavíkur þegar farið er um landið vestanvert.
    Öðru gegnir þegar horft er til þeirra vega sem þar eru á milli um austanvert landið. Það hefur verið ofarlega í umræðunni um vegaframkvæmdir á næstunni að tengja saman Austur- og Norðurland með vegi um Möðrudalsöræfi. Má segja að mjög mikilvægar ákvarðanir hafi verið teknar í þeim efnum með því að hafin er uppbygging vegarins yfir Mývatnsöræfi og byggð hefur verið brú yfir Jökulsá á Dal auk þess sem

hafinn er reglulegur snjómokstur á þessum vegakafla. Það hefur reyndar þegar komið í ljós að þessum ákvörðunum hefur verið vel tekið af fólki sem hefur lagt leið sína um þennan veg frá Austurlandi til Norðurlands. T.d. var í fyrravetur mikil umferð um þennan veg eftir að honum var haldið opnum með reglubundnum snjómokstri.
    Ég er að sjálfsögðu mikill stuðningsmaður þessara vegaframkvæmda. Ég var mikill stuðningsmaður þeirra ákvarðana sem voru teknar fyrir tveimur árum um fjárveitingar til sérstakra verkefna í vegagerð og eru nú sem óðast að koma í ljós.
    Þegar betur er hugað að málum þá ætti hitt að vera hverjum manni ljóst að mikil verkefni eru óunnin og sérstaklega er það í sumum kjördæmum. Mér sýnist að í þeim efnum sé kannski hlutur Austurlandskjördæmis einna lengst úti. Samkvæmt því sem Vegagerð ríkisins hefur gefið upp er áætlað að kostnaður við vegalagningu frá Biskupshálsi austur að Jökulsá á Dal kosti tæpan milljarð kr. og það liggur fyrir að óunnar framkvæmdir á hringveginum frá Fjallsá og austur í Reyðarfjörð kosti álíka upphæð. Það eitt að klára hringveginn með ströndum með þessum hætti kostar þannig um það bil 2 milljarða kr. Til viðbótar eru svo að sjálfsögðu ýmsir aðrir vegir óuppbyggðir í kjördæminu sem falla undir þau markmið vegáætlunar að tengjast hringveginum. Það hefur ekki verið lokið enn þá við tengingu við Seyðisfjörð, ekki við Borgarfjörð og ekki heldur við Vopnafjörð og Bakkafjörð. Þegar þessum árangri verður náð og tengingu frá Vopnafirði um Vopnafjarðarheiði að hringveginum þá hefur þessi tala tvöfaldast.
    Samkvæmt því sem fyrir liggur þá skortir í vegaframkvæmdir í Austurlandskjördæmi um það bil 4 milljarða kr. Þetta eru að sjálfsögðu háar tölur og hluti af þeim framkvæmdum eru ekki innan þeirra markmiða sem ég er hér sérstaklega að mæla fyrir um.
    Ég hef þess vegna, eftir að hafa farið yfir þessi mál, leitast við að vekja athygli á því með þessari tillögu hvernig mál standa í Austurlandskjördæmi að þessu leyti. Árlegar fjárveitingar hafa verið um 300 millj. kr. og með svipuðum hætti mundu framkvæmdir ná eitthvað fram á næstu öld sem auðvitað er óviðunandi miðað við það hvernig vegaframkvæmdir hafa þróast á síðustu árum. Umferð hefur aukist gífurlega mikið eins og væntanlega öllum hv. þm. er kunnugt um. Á þessari leið eru vegakaflar sem kosta mikið fjármagn en eru aftur á móti kannski ekki með ýkja langt vegakerfi. Þar nefni ég t.d skriðurnar sem eru í rauninni allt saman Ó-vegir eins og þær hafa verið skilgreindar. Þegar menn sjá fyrir um endalok vel uppborins vegar, að miklum hluta til hringvegarins, þá hljóta menn að þurfa að setjast niður yfir það að sjá fyrir um endalok þessara áforma og hvenær þau nást.
    Nú um þessar mundir eru tveir áratugir liðnir frá því að Austurland var tengt við vegakerfið um Skeiðarársand. Það var, ef ég veit rétt, árið 1974 og hafa menn gjarnan vitnað til þess um þessar mundir hvaða breytingar hafa fylgt í kjölfar þeirrar ákvörðunar. Með sama hætti hljóta menn nú að leggja áherslu á að ljúka hringveginum með bundnu slitlagi og rjúfa einangrunina milli Austur- og Norðurlands með vel uppbornum vegi um Möðrudalsöræfi.
    Ég hef þá skýrt þessa tillögu og lýk hér máli mínu.
    ( Forseti (KE) : Ég býst við að hv. þm. vilji leggja til að tillögunni verði vísað til samgn.)
    Ég legg til að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og hv. samgn.