Vegaframkvæmdir á Austurlandi

24. fundur
Miðvikudaginn 02. nóvember 1994, kl. 14:38:26 (1069)


[14:38]
     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það hefur nú verið svo um nokkurra ára skeið, átta eða níu ára skeið, að ríkissjóður hefur verið rekinn með miklum halla. Það er ekki nýtt í tíð hæstv. núv. ríkisstjórnar að ríkissjóður hafi verið rekinn með halla þó að sá halli sé e.t.v. minni en tölur vitna um frá fyrri hæstv. ríkisstjórn t.d. Ekki trúi ég því að hv. þm. Jón Kristjánsson ætli að halda því hér fram að ýmsar þær framkvæmdir, sem þáv. hæstv. ríkisstjórn stóð að, séu enn ógreiddar og ætlist til þess að framtíðin sjái um að borga þær framkvæmdir niður en ekki hann sem stuðningsmaður þáv. hæstv. ríkisstjórnar. Því miður er það svo að okkur hefur ekki tekist að halda fjárlögum innan þeirra marka sem við helst vildum af því að við teljum að það séu brýn verkefni sem þurfi að ná fram að ganga. Það er nú svo með framkvæmdir í vegamálum að þær hafa hingað til verið taldar allarðbærar og arðsamar, ekki einvörðungu gagnlegar heldur mjög arðsamar þannig að þær gætu gefið af sér á ýmsum sviðum t.d. í öflugra atvinnulífi og til að styrkja búsetuna þannig að þeir peningar sem til baka koma megi standa undir þessum auknu framkvæmdum sem núv. hæstv. ríkisstjórn hefur staðið að.