Vegaframkvæmdir á Austurlandi

24. fundur
Miðvikudaginn 02. nóvember 1994, kl. 15:31:34 (1089)


[15:31]
     Flm. (Egill Jónsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég kann því náttúrlega vel að hv. þm. Steingrímur Sigfússon geri aðrar kröfur til mín en sjálfs sín. En af því að hann var nú að tala einmitt um það að þetta væri gott plagg til þess að veifa eins og hann orðaði það, þá vildi það nú svo til að ég var samtímis hv. 4. þm. Austurl. á ferðalagi norður í Vopnafirði og þar var einmitt þetta plagg skilið eftir þannig að maður sér það náttúrlega þar með hver er ástæðan fyrir þeim tillöguflutningi. En það breytir ekki því og kannski er það vegna þess hvernig þessi tillöguflutningur fer í skapið á hv. þm. Steingrími Sigfússyni sem má nú vart vatni halda hér í ræðustólnum að hann hefur sjálfur verið samgrh. og vanrækti þá Norðausturland eins og menn hafa nú orðið vitni að í þessari umræðu og það er ekki furða þó að honum mislíki þegar það er dregið hér fram.