Samstarfsörðugleikar innan lögreglunnar í Kópavogi

24. fundur
Miðvikudaginn 02. nóvember 1994, kl. 15:44:27 (1093)


[15:44]
     Petrína Baldursdóttir :

    Virðulegi forseti. Það má með sanni segja að ekkert sé Alþingi óviðkomandi. Það er nánast daglegur viðburður að utandagskrárumræður séu haldnar um hin ýmsu mál. Ég verð að lýsa undrun minni á því að hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson skuli hér hefja utandagskrárumræður um innri málefni lögreglunnar í Kópavogi. Það hlýtur að gefa auga leið að svona mál er mjög erfitt að tjá sig um, hvað þá að fella dóm yfir öðrum hvorum deiluaðila sem í hlut á. Þetta eru fyrst og fremst innanflokksátök innan lögreglunnar í Kópavogi og það hljóta að vera tvær hliðar á svona viðkvæmu máli.
    Sú skýrsla sem menn hafa vitnað hér í sem á að vera einhvers konar úttekt á störfum lögreglunnar í Kópavogi hlýtur að vera matsatriði dómsmrn. og lögreglu, hvernig með þá skýrslu skuli farið. Ég verð að segja alveg eins og er að ég skil ekki málshefjanda að ætla sér að taka þessi mál til umræðu í hálftíma utandagskrárumræðu. Ég treysti því a.m.k. að ráðuneytið og yfirstjórn lögreglunnar séu fullfær um að taka á þessu máli og leysa þann hnút sem kominn er á milli manna í samskiptum. Það verður ekki leyst í sölum Alþingis.