Samningsgerð, umboð og ógildir löggerningar

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 12:50:24 (1135)

[12:50]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Frv. þetta tengist EES-samningnum, nánar tiltekið svokölluðum viðbótarpakka. Það byggist á tilskipun ráðsins nr. 93, nr. 13 frá 5. apríl 1993, um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum, en sú tilskipun miðar að því að koma í veg fyrir röskun á samkeppni á Evrópska efnahagssvæðinu og tryggja jafnframt vernd handa neytendum. Skal taka ákvæði tilskipunarinnar upp í landsrétti EES-ríkjanna í síðasta lagi 31. des. 1994. Samráð hefur verið haft við hin Norðurlöndin um undirbúning að breytingu á íslenskri löggjöf. Er einkum höfð hliðsjón af áformum Dana og Norðmanna í þessum efnum en norræn samningalög byggjast á sama stofni. Frá þeirri meginreglu íslensks fjármunaréttar að samningsfrelsi skuli ríkja og samninga skuli efna er veigamikil undantekning sem treystir réttarstöðu neytenda og felur í sér að víkja má til hliðar eða breyta ósanngjörnum samningsskilmálum. Aðalákvæði þar að lútandi eru 36. gr. samningalaganna eins og henni hefur verið breytt með lögum nr. 11/1986.
    Ákvæði 36. gr. samningalaganna fullnægja að mestu leyti kröfum tilskipunarinnar sem ég nefndi en með henni er stefnt að því að samræma löggjöf EES-ríkjanna um vissa, ósanngjarna samningsskilmála í neytendasamningum, fyrst og fremst staðlaða samninga, m.a. staðlaða samningsskilmála. Gera þarf vissar breytingar á íslensku samningalögunum og er stefnt að því með frv. að gera smábreytingu á 36. gr. og bæta auk þess við fjórum nýjum greinum, 36. gr. staflið a--d. Mundu viðbótarákvæðin gilda um vissa samninga að því er snertir sanngirnismat, ósanngirni sem skilgreind er með sérstökum hætti, túlkun, réttaráhrif og vernd handa neytendum gegn vissum ákvæðum um erlend lög sem gilda skulu um viðkomandi samninga. Markmið með samvinnu norrænna embættismanna vegna upptöku ákvæða tilskipunarinnar í landsrétt var að tryggja sem best samræmi áfram milli samningalaga Norðurlandanna að vernd handa neytendum yrði ekki skert frá því sem er.
    Svo sem fram kemur í 2. gr. frv. taka ákvæði þessi ekki til allra samninga heldur til samninga, m.a. samningsskilmála sem ekki hefur verið samið um sérstaklega, enda

séu samningarnir liður í starfsemi atvinnurekenda en í meginatriðum ekki liður í starfsemi hins aðilans, neytandans. Ákvæðin eiga þannig fyrst og fremst við staðlaða samninga eða staðlaða samningsskilmála eins og ég hef greint frá. Ákvæðin gilda ekki um samninga milli atvinnurekenda og ekki t.d. á sviði sifjaréttar, m.a. um samninga er tengjast hjónaskilnaði. Þetta eru nokkur dæmi um takmarkanir á gildissviði hinna nýju ákvæða.
    Ekki telst að það hafi verið samið sérstaklega um samningsskilmála ef hann hefur verið saminn fyrir fram og neytandi því ekki haft tækifæri til að hafa áhrif á efni skilmálans, einkum þegar um er að ræða fastorðaða staðalsamninga. Á atvinnurekanda, en það hugtak er notað eins og í danska og norska frv. viðsemjenda neytandans, hvílir sönnunarbyrðin fyrir því að samið hafi verið sérstaklega um samning og hann falli því ekki undir nýju ákvæðin um staðalsamninga o.fl. Ákvæðin hér að lútandi eru í 2. gr. frv.
    Í 3. gr. frv. segir m.a. að vafa um merkingu samnings skuli túlka neytandanum í hag. Þarf að lögfesta slíkar túlkunarreglur til að uppfylla skilyrði tilskipunarinnar.
    Í 4. gr. frv. felst að 36. gr. samningalaganna gildir óbreytt um samninga, m.a. samningsskilmála sem samið hefur verið sérstaklega um með þeirri undantekningu sem felst í 5. gr. frv. um lagavalsregluna. Eru ákvæði 36. gr. samningalaganna almennt víðtækari með tilliti til neytendaverndar en ákvæði tilskipunarinnar.
    Um stöðluðu samningana og stöðluðu skilmálana gildir 36. gr. einnig en þó með vissum breytingum. Er með öðrum orðum sagt í 2. mgr. 4. gr. frv. að ekki skuli taka tillit til atvika sem koma til eftir samningsgerð neytanda í óhag. Snertir þetta ákvæði sanngirnismat en ósanngirnisreglan í 3. mgr. 4. gr. frv. setur það skilyrði að skilmáli eða skilmálar verði að stríða gegn góðum viðskiptaháttum og raska til muna réttindum og skyldum samningsaðila neytanda í óhag. Ef svo er þá er unnt að víkja til hliðar eða breyta samningum eða einstökum skilmálum þeirra. Samningurinn skal þá að kröfu neytenda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur óbreyttur. Breytingar þessar í 4. gr. frv. fela samkvæmt þessu í sér mismunandi reglur um mat á atvikum eftir samningagerð sbr. 2. mgr. ósanngirnismatinu almennt sbr. 3. mgr. og réttaráhrifum varðandi gildi annarra samningsskilmála, með öðrum orðum mismunandi reglur eftir því hvort samningur fellur beint undir 36. gr. samningalaganna eða hin nýju ákvæði sem ná fyrst og fremst til staðlaðra samninga eða samningsskilmála.
    Í viðauka við tilskipunina sem birtur er sem fskj. I er skrá yfir ýmsa samningsskilmála sem teljast ósanngjarnir og tengist skráin aðalreglu tilskipunarinnar, með öðrum orðum ósanngirnisreglu þeirri sem tekin er upp í 3. mgr. 4. gr. frv. Skráin er til leiðbeiningar og er ekki tæmandi yfir þá skilmála sem teljast ósanngjarnir. Skráin er í tveimur hlutum. Í fyrri hluta eru 17 dæmi um skilmála sem geta verið ósanngjarnir en í síðari hluta hennar eru takmarkanir á gildissviði dæma í fyrri hlutanum, einkum að því er snertir fjármálaþjónustu. Þar eð dæmin eru að ýmsu leyti óskýr og mjög almennt orðuð þótti norrænum sérfræðingum varhugavert að lögfesta skrána sem slíka.
    Í 5. gr. frv. eru ákvæði sem ætlað er að tryggja að neytandinn verði ekki sviptur þeirri vernd sem tilskipunin veitir við það að lög lands utan EES-svæðisins séu valin sem gildandi lög fyrir samninginn eða tengi samningurinn náið landsvæði aðildarríkja að EES-samningnum.
    Eins og ég hef gert grein fyrir er gert ráð fyrir að nýju lagaákvæðin taki til samninga sem ekki hefur verið samið um sérstaklega, með öðrum orðum fyrst og fremst til staðlaðra samninga eða samningsskilmála, hvort sem þeir eru gerðir fyrir eða eftir gildistöku laganna. Gerð er undantekning frá þessu að því er varðar túlkunarreglu 3. gr. frv. þess efnis að vafa um merkingu einstakra samninga eða samningsskilmála skuli túlka neytandanum í hag. Gildir hún ekki um samninga sem gerðir eru fyrir gildistöku laganna. Þykir eðlilegt að fara þessa leið þar eð túlkunarregla þessi er nýmæli í samningalögum.
    Í fskj. II er að finna ýmsan fróðleik um 36. gr. samningalaganna og í fskj. III ýmsa dóma sem snerta ósanngjarna samningsskilmála, einkum 36. gr. samningalaganna.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og til hv. efh.- og viðskn. og það er mín von og ósk að það takist að afgreiða frv.

þetta á haustþingi til að uppfylla sett tímaörk.