Jarðalög

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 15:03:59 (1152)


[15:03]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er næsta átakanlegt að virða fyrir sér þann málatilbúnað sem hér liggur fyrir í formi stjfrv. af hálfu hæstv. landbrh. Ekki er síður átakanlegt að heyra málflutning eins og þann sem kom áðan frá hv. 5. þm. Norðurl. e., manni sem gaf um það yfirlýsingar fyrir síðustu alþingiskosningar, í aðdraganda þess að hann kom inn á Alþingi, að hann mundi ekki standa að samþykkt samningsins um Evrópskt efnahagssvæði ef hann veitti þann rétt sem samningurinn veitir. Þetta rifjaði ég upp í umræðu um málið fyrir nokkru síðan þegar samningurinn hafði enn ekki verið samþykktur. Margt í máli hv. þm. ber vott um að eftirköstin séu þung og erfið hjá þingmanninum. Hann er hér að reyna að leita huggunar í þessu sérkennilega frv. hæstv. landbrh. þar sem í rauninni er með feluleik verið að ganga fram hjá grundvallaratriðum EES-réttarins sem kveðið er á náttúrlega með skýrum hætti í 4. gr. samningsins sjálfs þar sem mismunun eftir þjóðerni er ekki heimil og það gildir um alla þætti fjórfrelsisins. Hér eru menn að leika sér að því, og það gerði hv. þm., að reyna að leika sér að því að reyna að finna einhver tengsl á milli þessara fjórfrelsisþátta og skilyrða þau og það voru mjög sérkennilegar æfingar. Ég tel að þessi málatilbúnaður standist ekki samkvæmt reglum EES-réttarins. Ég tel að þarna sé í rauninni búið að opna fyrir kaup hér á landi með öllu því sem hér fylgir, þar á meðal á íslenskum auðlindum sem fylgja landareign að við því verði til frambúðar engar raunhæfar skorður reistar að veita þar Íslendingum einhvern forgangsrétt til þess að taka þátt í samkeppni um kaup á landi og halda slíkum eignaryfirráðum.