Jarðalög

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 15:06:24 (1153)


[15:07]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson lýsti hér hlutverki mínu sem átakanlegu og hélt því fram að ég hefði lýst því yfir að ég mundi aldrei sætta mig við að það frelsi sem veitt er í samningnum yrði veitt. Þetta er ekki rétt vitnað í mín orð. Það sem ég sagði, hv. þm., í þessu sambandi var það að ég teldi ekki hægt að sætta sig við það og ég mundi ekki sætta mig við það að erlendir aðilar fengju jafnan rétt á við íslenska til að kaupa jarðnæði á Íslandi. Hluti af minni ræðu hér gekk út á það að sýna fram á það að útlendingar hafa ekki þennan rétt. Hafi hv. þm. ekki skilið þetta þá þykir mér það leitt og er mér ljúft að endurtaka það og árétta það við síðari tækifæri í þessari umræðu.
    Ég vil hins vegar taka það fram að ef eitthvað, hv. þm., er átakanlegt í þessu máli þá er það það að hinn almenni fyrirvari var tekinn út í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar sem var studd af hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni. Það var átakanlegt og þar urðu slysin. En ríkisstjórnin hélt áfram að sitja og þingmennirnir héldu áfram að styðja þá ríkisstjórn þó að þessi fyrirvari hefði verið tekinn út. ( SJS: Þetta skaltu ræða við utanrrh.) Hv. þm. sem kallar hér framan úr sal, fyrrv. landbrh., hefur væntanlega lagt sig í líma við að fylgjast með gangi mála hjá utanrrh. en það gerði hann því miður ekki. (Gripið fram í.) Hann fylgdist ekki með þessum viðræðum og þess vegna var hann ekki í stöðu til að krefjast þess að þessum fyrirvara væri haldið inni. Hann fylgdist ekki með umræðunum.