Fjárveiting til vegagerðar í Reykjavík

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 15:49:45 (1212)



[15:49]

     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Það ber að þakka það að þessi fyrirspurn komið fram og það skýrir kannski málið fyrir mönnum að nú skuli vera nýlega búið að halda fund um þessi mál þar sem menn stefna að nýrri niðurstöðu og að það skuli ekki enn hafa verið rætt t.d. á vettvangi samgn. þingsins. Það liggur fyrir að það eigi að endurskoða vegáætlun í vetur. Það hefur ekki verið rætt um þetta mál í samhengi við það. Auðvitað er þetta staðfesting á því að þessi hæstv. ríkisstjórn ætlar að halda áfram þeirri vitleysu að taka lán til vegagerðar án þess að það sé tekið inn á áætlanir með hvaða hætti eigi að greiða það til baka. Hæstv. ráðherra kom því ekki til skila, a.m.k. ekki í umræðunni áðan, hvernig ætti að greiða þetta til baka eða hvort það ætti að safna þessum skuldum sem skuldum á Vegasjóð fyrir næstu ár. Ég held að það kunni ekki góðri lukku að stýra hvernig með þessi mál er farið. Ég held að menn verði að gera kröfur til þess að það verði staðið eðlilegar að þessum málum heldur en hæstv. ríkisstjórn er búin að gera á þessu kjörtímabili og ætlar að bæta enn við með þeim hætti sem hér liggur fyrir.