Olíumengun á sjó

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 17:47:38 (1262)


[17:47]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Fyrsta spurningin hljóðar svo: Hvaða yfirvöld heimiluðu flutningaskipinu Carvik að sigla frá slysstað út af Skerjafirði yfir Faxaflóa og að Grundartanga með lekan olíugeymi í byrðingi skipsins?
    Frétt um strandið barst til Siglingamálastofnunar frá Landhelgisgæslu kl. 14.23 og tilkynning kom síðan frá Hafnarfjarðarhöfn kl. 14.25. Þær upplýsingar fylgdu tilkynningunni að gat væri komið á olíugeyma undir sjólínu skipsins og minni háttar leki hafi átt sér stað við strandið en væri hættur. Þá kom fram að mikill sjógangur væri á strandstað og nauðsynlegt væri að koma skipinu í var. Vegna þessara upplýsinga var ekki talin ástæða til að leggjast gegn því að skipið kæmist í var við Grundartanga. Hitt er annað mál að stjórnvöld hafa ekki ótvíræða lagaheimild til inngrips við slíkar aðstæður og verða að treysta á samvinnu við yfirvöld skips og umboðsmenn. Það stjórnvald sem undir samgrn. heyrir, þ.e. Siglingamálastofnun ríkisins, heimilaði ekki þessa siglingu enda ekki eftir slíkri heimild leitað.
    Í öðru lagi: Hvaða reglur gilda um för skipa hér við land sem hafa orðið fyrir áfalli, leka, þannig að hætta er á áframhaldandi olíumengun af þeirra völdum?
    Helstu lög um ferðir skipa sem orðið hafa fyrir áfalli, leka, þannig að hætta er á áframhaldandi olíumengun af þeirra völdum eru lög nr. 42/1926, um skipstrand og vogrek, lög nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar, lög nr. 34/1993, um leiðsögu skipa, og hafnalög, nr. 23/1994. Af þeim reglum sem um þetta fjalla og heyra undir samgrn. skal einkum nefna hafnareglugerðir sem hafa að geyma ítarleg ákvæði um umferð skipa um hafnir ásamt meðferð hættulegs varnings.
    Með auglýsingu nr. 566/1993 var lögfest hér á landi tilskipun hins Evrópska efnahagssvæðis um lágmarkskröfur fyrir tilskilin tankskip sem koma til og fara frá höfnum í aðildarríki þess.
    Í þriðja lagi er spurt: Telur ráðherra þörf á að skerpa þær reglur í ljósi óhapps flutningaskipsins

Carviks og annarra tilvika undanfarin ár?
    Svar: Lög um leiðsögu skipa, lög um skipsströnd og vogrek og hafnalög ásamt reglugerðum settum samkvæmt þeim eru allítarleg og ekki ástæða til að skerpa þau að sinni. Þar sem lög um mengun sjávar eru á forræði hæstv. umhvrh. er rétt að hann svari þar um.