Innflutningur garðávaxta

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 18:24:15 (1283)


[18:24]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Fyrri spurningin er: Eru áform um að stytta það tímabil þegar leyfður er innflutningur garðávaxta? Innflutningur á garðávöxtum lýtur að reglum sem settar eru í 53. gr. laga nr. 99/1993,

eða búvörulögunum. Þar segir að innflutningur þeirra vara sem greinin tekur til skuli því aðeins leyfður að innlend framleiðsla fullnægi ekki eftirspurn.
    Ráðherrann lýtur ráðgjöf nefndar sem skipuð er fulltrúum framleiðanda og innflytjanda þegar ákvarðanir eru teknar varðandi innflutning í þessum vöruflokki. Innflutningur er ekki heimilaður fyrr en innlend framleiðsla fullnægir ekki eftirspurn og þess er gætt að innlend og innflutt vara séu ekki samtímis á markaði nema í mjög stuttan tíma. Verði sá tími sem innflutningur er leyfður styttur kallar það á skort á vörunni og það er ekki stefna landbrh. eða bændasamtakanna að vöruna vanti á markaðinn. Rétt er að geta þess að tímabilin hafa verið breytileg eftir árum, allt eftir framleiðslumagni og sölu á innlendri framleiðslu.
    Eina undantekningin frá meginreglunni hér að ofan er innflutningur frá löndum Evrópusambandsins samkvæmt svokölluðu cohesion-lista. Í samningi Íslands og ESB er kveðið á um frjálsan og ótollaðan innflutning á nokkrum tegundum grænmetis og blóma til Íslands. Samkvæmt þeim samningi er heimilt að flytja til landsins tómata, gúrkur, paprikur, salat o.fl., tegundir sem skipta minna máli frá 1. nóv. til 15. mars ár hvert.
    Öllum er kunn forsaga þess máls. Árið 1991 ákvað ríkisstjórnin að íslensku fulltrúarnir skyldu ekki taka þátt í umræðum um landbúnaðarkafla tvíhliða samningsins milli Evrópusambandsins og EFTA. Það var á öndverðu ári 1991 sem sú ákvörðun var tekin. Það var gert undir því yfirskini að verið væri að þrýsta á sjávarútvegsmálin. Á meðan gengu önnur ríki EFTA frá þeim þáttum landbúnaðarmála sem samningskröfur lágu frammi um og þegar sjávarútvegsmálin komust upp á borðið, eða á miðju sumri 1991, þá gafst loksins tími til að taka landbúnaðarmálin upp. Eins og ég hef áður sagt voru samningsdrögin mjög óaðgengileg. Það var fyrst og fremst vegna góðvilja þýska ráðherrans Kiechle að við fengum leiðréttingar á samningsdrögunum eins og þau lágu þá fyrir.
    Framsetning þessa máls var líka með þeim hætti að samningurinn, eða cohesion-listinn, átti að verða til þess að liðka fyrir framleiðslu og sölu á afurðum frá Suður-Evrópuríkjum. Þess er þó hvergi getið í sjálfum samningnum eða viðaukum við hann og því eru fluttar inn til landsins vörur frá öðrum löndum Evrópusambandsins, svo sem Hollandi, tollalaust.
    Landbrn. skrifaði 19. júlí 1994 utanrrn. þar sem m.a. var óskað eftir því að taka þessi mál upp. Þar var farið fram á breytingar á þeim dagsetningum sem cohesion-listinn tekur til en ekki er neitt frekar um það að segja samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef.
    Síðan er spurt hvort ráðherrann muni beita sér fyrir því að ekki verði meira til í landinu en sem nemur hálfs mánaðar birgðum af grænmeti í lok innflutningstímabils. Þær tegundir sem cohesion-listinn tekur til eru flestar vörur með takmarkað geymsluþol og því ekki lengi á markaði eftir að innflutningstímabili lýkur. Það breytir ekki því að ráðherra hefur engar heimildir til að takmarka innflutning á cohesion-tímabili og því getur verið til í landinu umtalsvert magn í lok tímabilsins. Öðru máli gegnir um ýmsar aðrar tegundir eins og kartöflur. Þær eru geymsluþolnar og geta verið á markaði lengi eftir að innflutningur hefur verið bannaður. Þar er ráðherra heimilt að úthluta kvóta til innflytjanda og miða þar við þá markaðshlutdeild sem innflytjendur hafa við dreifingu á innlendri framleiðslu. Verklagsreglan hefur þó verið sú að forðast í lengstu lög að úthluta innflutningsheimildum heldur fylgjast vel með því magni sem kemur og stöðva innflutning tímanlega áður en innlend vara kemur á markaðinn. Oftast nær hefur verið góð samvinna við innflytjendur og dreifingaraðila út af þessum málum en einstaka aðilar hafa þó farið offari.
    Ég vonast til að þessum fyrirspurnum sé svarað eins og tíminn leyfir.