Jarðalög

28. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 19:05:52 (1292)


[19:05]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ja, veik er nú vörnin hjá hv. þm. Hann flýr í það skjól að staðhæfa að vegna þess að ekki hafi verið nógu vel frá hlutunum gengið í tíð fyrrv. ríkisstjórnar þá geti hann þvegið hendur sínar af þessu máli. Þá geti hann sloppið frá þeim yfirlýsingum sem hann gaf 1991. Þar virtist hv. þm. átta sig á því hvað hér væri í húfi. Ég held að hv. þm. hafi ekkert verið að mæla um hug sér á þeim tíma heldur áttað sig á því og yfirlýsingar hans voru ótvíræðar þann 18. apríl þegar greinin er prentuð sem ég vitnaði til, mjög ótvíræðar og skýrar. Það sem ég var að óska eftir eða hefði talið að væri eðlilegt framhald af orðum þingmannsins eins og það var þá, það álit sem hann lét í ljós þá, það hefði verið að greiða atkvæði á móti þessum samningi því það var það sem hann var að segja með þessari yfirlýsingu sinni.
    Um stöðu málsins í tíð fyrrv. ríkisstjórnar ætla ég ekki að fara að ræða hér frekar að öðru leyti en því að ríkisstjórnin hafði aldrei fallið frá fyrirvörum m.a. varðandi eignarhald á landi. Ríkisstjórnin hafði ekki gert það. Annað er hvað hæstv. utanrrh. sem núv. ríkisstjórn tók í arf hafði gert á sínum vegum. Það er önnur saga sem ég ætla ekki að fara að rekja enda ekki aðstaða eða tími til þess.
    Málið er á ábyrgð núv. ríkisstjórnar. Málið var knúið fram á Alþingi Íslendinga vorið 1993 af núv. ríkisstjórn með atkvæði hv. þm. og það er núv. ríkisstjórn sem ber ábyrgð á samningnum ásamt þeim sem drógu við sig að leggjast þar í andstöðu sem voru þeir sem sátu hjá við afgreiðslu málsins sem lýsti að öðru leyti samþykki sínu við það.