Grunnskóli

29. fundur
Þriðjudaginn 08. nóvember 1994, kl. 13:35:55 (1303)

[13:35]
     Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Í umræðunni um frv. til laga um grunnskóla sem hefur verið til þessa alllöng og ítarleg finnst mér hafa komið fram að verulegu leyti staðfesting á því sem ég hélt fram í minni fyrri ræðu að hér sé býsna margt sem þarf að laga og mjög margt sem óunnið er. Ég hlýt því að endurtaka fyrri yfirlýsingar um mína skoðun, og stend við þær, að ég tel að þetta mál sé fallið á tíma og það sé nauðsynlegt að fresta yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaga en það er eins og menn vita það sem stendur á bak við þetta lagafrv. sem meginmarkmið þess.
    Það eru svo mörg atriði sem eru í óvissu og margt sem er óunnið. Það hefur verið rætt um ráðningarmál kennara, lífeyrismál þeirra og réttindamál öll og fjöldamargt annað sem er ógert. Ég vil leyfa mér að vitna í ræðu Eiríks Jónssonar sem stýrir Kennarasambandi Íslands. Þó að sú ræða sé orðin tveggja mánaða gömul, var flutt á Akureyri fyrir tveimur mánuðum, þá held ég að um margt standi hún enn fyrir sínu og þær skoðanir sem þar koma fram. En ég ætla að leyfa mér að vitna í þetta, með leyfi hæstv. forseta. Hann segir svo:
    ,,Það er mín skoðun að þrátt fyrir það að tvær nefndir hafi starfað sl. vetur á vegum menntmrh. og kannað með hvaða hætti væri hægt að standa að flutningnum, ef til hans kæmi, sé mjög margt óunnið enn. Önnur nefndin, þ.e. sú, sem var að skoða kjara- og réttindamál kennara og skólastjóra, skilaði tillögum til menntmrh. í apríl sl. eða fyrir bráðum fimm mánuðum. Nefndin lagði að mínu viti fram margar ágætar tillögur sem ættu að geta tryggt að núverandi starfsmenn verði ekki fyrir réttinda- eða kjaraskerðingu við tilflutninginn. Það er hins vegar alveg ljóst að sumar tillagnanna þurftu frekari skoðunar við og aðrar átti eftir að útfæra nánar. Ég verð að segja það sem mína skoðun að mér finnst það sorglegt að þessar tillögur skuli hafa legið sem trúnaðarmál í skúffum ráðherra allan þennan tíma í stað þess að vera í frekari vinnslu.``
    Álit hinnar nefndarinnar hefur komið fram núna en eftir stendur sú fullyrðing sem þarna er sett fram að það á eftir að vinna úr þessum tillögum, vinna með það sem þar er lagt til og fjöldamargt annað sem ógert er.
    Ef við lítum á frv. efnislega --- í síðustu ræðu var ég byrjaður að fara yfir það en tíminn leyfði ekki að hægt væri að ljúka því og mig langar til að grípa niður í III. kafla þar sem talað er um skólahúsnæði og halda yfirferðinni áfram.
    Það er talað um að gerð skólamannvirkja skuli undirbúin af sveitarstjórn í samráði við skólanefnd. Hér er ekkert rætt um það að samráð skuli hafa við það fagfólk sem á að starfa í skólunum, skólastjóra eða kennara og ég tel nauðsynlegt að það verði gert og reyndar ekki bara í 18. gr. heldur í öllum greinum þessa kafla. Það er nauðsynlegt ef á að tryggja það að húsnæði geti uppfyllt þær skyldur og uppfyllt þær kröfur sem til þess er gert að samráð sé haft við þá sem þar eiga að vinna um hvernig það verði best gert.
    Í 19. gr., þar sem er verið að telja upp ýmsa þætti sem skólanum tilheyra, er heilsugæsluaðstaða felld út, en kemur síðan aftur í 55. gr. Ég átta mig ekki alveg á því af hverju þarf að telja hana sérstaklega, af hverju hún getur ekki komið inn undir sama lið og annað undir 19. gr. Þetta er nú kannski ekki stórmál en ég vildi þó vekja athygli á þessu.
    Það er ekkert nefnt í þessari grein um aðstöðu til sérkennslu og það er ekkert nefnt um aðstöðu til sálfræðiþjónustu. Maður hlýtur að velta fyrir sér af hverju þetta er. Þetta er reyndar nokkuð í samræmi við annað sem hefur verið gagnrýnt í þessu frv. að orðin ,,sérkennsla`` og ,,sérkennari`` koma ekki fyrir þar, það er talað um sérfræðinga, og mikið er dregið úr vægi sálfræðinga og sálfræðiþjónustu. Ég hef getið um það fyrr að e.t.v. er hér verið að stefna í það að í stað þess að hafa þetta fólk sem starfsmenn skólakerfisins og skólanna þá verði stofnuð fyrirtæki eða einhverjar sérstofnanir, einkareknar væntanlega, og verktakastarfsemi keypt af þeim til sérkennslu og sálfræðiþjónustu. Það þykir mér afturför ef sú er hugmyndin. Nú er ég ekki að fullyrða það, en manni þykir sérkennilegt að þessir þættir skuli ekki vera í frv.
    Í 20. gr. segir m.a.: ,,Sveitarstjórn ákveður nafn skóla að fenginni umsögn menntmrn. og örnefnanefndar.`` Það er svo sem allt í lagi að þetta sé þarna inni en mér finnst með hliðsjón af því sem ég hef sagt áður um ýmiss konar samráð og ýmsar skyldur ráðuneytis að þá væri kannski ýmislegt mikilvægara að væri samráð við ráðuneytið um heldur en nafn skólans og kannski það léttvægasta í þessari umræðu án þess að ég sé að hafa á móti því að þetta sé þarna.
    Í 21. gr. er talað um skólahús og eignir skólanna sem byggt hefur verið með stofnkostnaðarframlagi úr ríkissjóði, hvernig ráðstafa skuli. Þá vaknar spurningin: Hvað með fræðsluskrifstofur sem eiga húseignir og ýmsar eignir aðrar sem eru tilkomnar með framlagi ríkis að miklu leyti, sveitarfélaga að hluta en eru yfirleitt í því formi að auðvelt er að meta og skipta þeim kostnaði? Hvað með eignir þeirra? Ég spurði að þessu í fyrri ræðu minni, en man ekki til að því hafi verið svarað. Það væri gaman að heyra hvaða hugmyndir eru uppi um eignir fræðsluskrifstofu, hvað við þær skuli gera.
    Í 22. gr. er spurning um ráðstöfun skólahúsnæðis sem hér er gert af hálfu sveitarstjórnar. Það er ekkert rætt um það að skólanefnd hafi um málið að segja. Þarna kemur kannski eitt atriðið enn sem ég hef verið að gagnrýna. Það er ekki samræmi í ákvæðum greina. Stundum er skólanefnd falið ákveðið hlutverk. Stundum er henni sleppt. Viðmiðunarreglur eru ekki þær sömu og ýmislegt sem margt skiptir ekki verulegu máli er óunnið í samræmingarátt og þarf svo sem ekki að vera mikill ásteytingarsteinn. Flest af þessu er hægt að gera en það hefði verið æskilegra að það hefði verið búið að fara inn í þetta fyrr og einmitt hérna í næstu grein, 23. gr. sem er um starfsfólk, var ég búinn að ýja örlítið að því að það er tvenns konar viðmiðun, annars vegar kennararáð með átta stöðugildum og hins vegar þar sem er um aðstoðarskólastjóra að ræða, en hann kemur inn þegar 12 starfsmenn starfa við skólann. Hérna er ekki sama viðmiðun. Og þá verður að bera fram spurningar: Hver er starfsmaður skóla? Og til þess að skýra við hvað er átt, þá má spyrja: Er ræstingafólk starfsmenn skóla? Eru skólabílstjórar starfsmenn skóla? Hvernig breytist þetta ef ræstingin er í höndum verktakafyrirtækis sem sendir kannski ekki endilega sama starfsmanninn heldur sér um þessa þjónustu sem hluta af umfangsmikilli starfsemi? Það eru skilgreiningarákvæði þarna sem þurfa að vera nokkuð á hreinu: Hver er starfsmaður skóla? Þetta víkkar við flutninginn til sveitarfélaga þar sem undir skólann heyra þá fleiri og fleiri starfsmenn sem eru í þjónustu sveitarfélaganna, greiddir af þeim. Ég vil þá benda á að þetta ákvæði þarf að skýra.
    Síðan er það um ráðningu kennara og annarra starfsmanna. Helst er að sjá að skólastjóri hafi nú ekkert um það að segja. Í núgildandi lögum er það skólastjóri sem ræður kennara og það var breyting sem var allgóð sátt um að gera að skólastjóri tæki við þessu af ríkinu og síðar fræðslustjórum. En núna stendur í 23. gr. að um ráðningu kennara og annarra starfsmanna fari eftir ákvæðum í samþykkt um stjórn sveitarfélags. Mér finnst að þessi grunnskólalög sem eiga að marka faglega stefnu í málefnum grunnskólans ættu að vera með ákvæðum um það að stjórnandi skólans, þ.e. skólastjóri, hafi þarna afgerandi völd til að ráða

starfsmenn en ekki þannig að sveitarstjóri eða einhver áhrifamaður í sveitarfélaginu geti sett kennara undir stjórn skólastjóra hvort sem hann vill eða ekki. Það er mjög auðvelt að sjá fyrir sér ýmis vandamál sem geta stafað af þessu fyrirkomulagi.
    Það er ekki orð um stöðu sem heitir námsráðgjafi, eða ég hef ekki fundið það í þessu frv. Námsráðgjafar hafa að vísu ekki komist til starfa í skólakerfinu eins og æskilegt væri en það hefur verið stefnt að því að koma námsráðgjöf inn í grunnskólann og allar vonir stóðu til þess að það væri á góðri leið. En nú sé ég ekki á þessu frv. hér að námsráðgjafi sé lengur þarna inni. Hvaða skýringar eru á þessu?
    ,,Skólastjóra er heimilt að fela kennurum árgangastjórn, fagstjórn, leiðsögn nýliða og kennaranema samkvæmt nánari ákvörðun sveitarstjórnar.``
    Ég hef heilmikið velt þessari klausu fyrir mér --- ,,er heimilt að fela kennurum árgangastjórn, fagstjórn, leiðsögn nýliða og kennaranema samkvæmt nánari ákvörðun sveitarstjórnar.`` --- Á þessi klausa ,,samkvæmt nánari ákvörðun sveitarstjórnar`` við um alla greinina?
    Síðan vaknar spurningin: Á ákvæði kennaranema að vera þarna inni þar sem það eru kennaramenntunarstofnanir sem koma þarna inn og einhverjir samningar þurfa að vera í gildi um hvernig þjónusta við það eigi að vera og það er kannski ekkert óeðlilegt að það sé á opinberum vettvangi.
    Ýmsar spurningar hafa vaknað um 25. gr. þar sem talað er um sjóð þann sem settur er á stofn og greitt 1% af dagvinnulaunum kennara og skólastjóra í. Samband ísl. sveitarfélaga á að annast rekstur og varðveita. Það er mikil spurning hvort það sé eðlilegt að Samband ísl. sveitarfélaga annist rekstur á þessum sjóði og varðveiti hann, hvort að samtökum kennara sé ekki trúandi fyrir því að fara með þennan sjóð. Hins vegar vil ég lýsa ánægju minni yfir því að þetta skuli vera tryggt með þessum hætti þar sem einnig er að finna í 50. gr. ákvæði um fé á fjárlögum til sama hlutarins.
    Í V. kafla er talað um starfstíma grunnskóla. Þar er talað um það kennslumagn sem á að vera til ráðstöfunar til kennslunnar og manni virðist þegar maður lítur á það að þetta séu heilmikil rök fyrir því að samþykkja þetta frv. og gera það að lögum. Ég fór að velta því fyrir mér hvort með því að leggjast gegn því að þetta væri samþykkt núna og leggja til frestun væri verið að vega að skólunum, hvort það væri verið að draga úr kennslumagni til skólanna með þessari frestun. Svona fljótt á litið þá virðist manni það gæti verið því hérna er um að ræða allmikla aukningu á því sem nú er þegar þessu er náð.
    Þegar maður fer hins vegar að bera þetta saman við staðreyndirnar og það sem nú er þá sýnist mér það vera þannig að stundafjöldi í núgildandi lögum sé 314 stundir ef allt væri uppfyllt. En samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í þessu frv. á stundafjöldi haustið 1995 að vera 299 eftir því sem mér telst til. Haustið 1996 309 og haustið 1997 319. Þannig að það er fyrst haustið 1997 sem stundafjöldi færi upp fyrir þau ákvæði sem eru í núgildandi lögum.
    Eins og ég gat um í upphafi eru ákvæði í lögum sem nú gilda nægileg til þess að tryggja þennan stundafjölda og allmiklu meira og það væri kannski það sem væri nauðsynlegt að vinna að núna og brýnna heldur en breyting á þessum nema hvað snertir auðvitað þá breytingu sem snýr að flutningi grunnskólans. Mér er ljóst að breytingu verður að gera til þess en mér er jafnljóst að undirbúningur þeirrar breytingar er of skammt á veg kominn til þess að hann geti lánast í tæka tíð.
    Í framhaldi af umfjöllun um kennsludaga grunnskólanema og kennslustundafjölda kemur ákvæði um leyfi nemenda sem ég hef áður tekið fram að mér finnst vera óskýrt og að það vanti inn nánari ákvæði til þess að skýra þessa grein hvort sem það væri með reglugerð eða með skóladagatali eða öðru slíku.
    Hér hefur áður verið rætt um kjarnagreinar og það sem að þeim snýr.
    Ég vil ítreka það sem áður hefur komið fram í sambandi við hlutverk skólanefndar. Það kemur aftur og aftur fram í þessu frv. og ég held að það sé tæpast nægilega klifað á því að það er mjög varhugavert að ætla skólanefnd þar sem situr fólk án skilgreindrar menntunar, án þess að til þeirra séu gerðar ákveðnar kröfur um menntun eða hæfni til að sinna þeim þáttum sem þarna á að gera, þá er mjög erfitt að sætta sig við það að nefnd af þessu tagi eigi að fá jafnveigamikið og þungt hlutverk eins og þarna um ræðir. Mjög víða kemur það fram í frv. að skólanefnd er ætlað að sinna eftirlitsstarfi, ætlað að sinna úrskurðarstarfi og fjöldamörgu öðru sem menntmrn. hafði og síðar fræðslustjórar í umboði ráðuneytisins. Í sumum tilvikum reyndar barnaverndarnefndir. En til þess að skólanefnd geti annast þetta er nauðsynlegt að gera til hennar ákveðnar hæfniskröfur sem aftur má líta á að er ekki alls staðar auðvelt að uppfylla.
    Sérfræðiþjónusta skóla. Sveitarfélögin eiga að annast sérfræðiþjónustu skóla eftir þessa breytingu. Hvernig eiga þau að gera það? Ég hef áður komið að því: Það vantar einhverjar hugmyndir um hvernig á að gera þetta, eða réttara sagt það vantar tryggingu fyrir því að sveitarfélögin geti annast þessa sérfræðiþjónustu. Það þarf að vera ljóst hver eiga að vera skilgreind verkefni sérfræðiþjónustunnar, hverjir eiga að starfa þar, hvaða þjónusta á að vera til staðar og hvernig á að veita hana. Menn velta því fyrir sér hvort möguleikar séu jafnir í þessu og það er nú það sem kannski andi grunnskólalaganna hefur ætíð verið, að reyna að veita sem jafnasta aðstöðu til mennta hér á landi. Og þá spyr maður: Eiga höfuðborgin Reykjavík og kannski smábær eins og Raufarhöfn sömu möguleika? Verður ekki að gera einhverja kröfu til landshlutasamtaka eða sveitarfélaga um að lagðar séu fram hugmyndir um það hvernig þessu verður háttað og ráðuneytið ætli sér það að samþykkja eða hafna þeim hugmyndum eftir því hvort þær standa undir þeim kröfum sem verður að gera?
    Að lokum vil ég nefna samkennsluþáttinn sem hv. 4. þm. Norðurl. v. talaði um og hann kemur

einmitt inn í það sem áður hefur mikið verið rætt um hér, þ.e. hámarksfjöldi í bekkjum. Samkennsluformið er ríkjandi form í meira en helmingi grunnskóla á Íslandi. (Forseti hringir.) Samt sem áður er því ekki sinnt, hvorki með lagasetningu né með námsefni eða á annan hátt þannig að þar er mjög stór akur sem þarf að yrkja og ég legg áherslu á að inn í þetta frv. verði tekin ákvæði um hámarksfjölda í bekk og þar með ákvæði um hvernig með samkennslu skuli fara.