Framhaldsskólar

29. fundur
Þriðjudaginn 08. nóvember 1994, kl. 20:40:54 (1328)


[20:40]
     Pétur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Því miður missti ég af svörum hæstv. menntmrh. áðan. Það gerast langar setur yfir þessum málum hér og menn verða að bregða sér frá stöku sinnum til að næra sig, það er óhjákvæmilegt. Þegar ég fór frá áðan þá var búið að kynna það að hv. þm. einn mundi tala næstur þannig að ég ætlaði að nota tækifærið áður en hæstv. menntmrh. svaraði og missti þar af leiðandi af því þar sem það hefur verið flutt til og ég harma það.
    En ég kem hér upp út af því sem kom fram um þetta merka rit Til nýrrar aldar. Í sjálfu sér skiptir það ekki máli fyrir minn málflutning hvort þessi bók, Til nýrrar aldar, og það sem henni fylgdi var lokað ofan í skúffu eða lá í opinni skúffu. Það sem skiptir máli og það sem ég var að segja frá er að allmargir nemendur við Kennaraháskólann, sem m.a. leituðu fanga á fræðsluskrifstofum, í ráðuneyti og víðar töldu sig sækja margar upplýsingar í þessa bók. Þeir leituðu eftir því í menntmrn. og þeim var sagt að það væri ekkert eintak til af þessari skýrslu. Þetta væri ekki til þarna. Það var þetta sem ég var að segja. Hvar þessi eintök liggja, ef þau eru til, skiptir svo kannski minna máli. Staðreyndin er sú að þetta var ekki tiltækt. Þetta vildi ég segja.
    En ég vil ítreka aftur það sem ég bæði byrjaði og lauk minni ræðu á áðan að það er afleit stefna ef það á að búa til nýja skólastefnu fyrir hver stjórnarskipti sem verða í landinu. Það er afleit stefna og ég held að það sé tímabært fyrir allra flokka menn að vinna að því að svo verði ekki haldið áfram.