Tilhögun utandagsskrárumræðu

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 16:11:57 (1395)


[16:11]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég hafði sett mig á mælendaskrá í þessu máli í þeirri góðu trú að hér ríkti enn það málfrelsi sem ég hef kynnst á þeim árum sem ég hef setið á þingi. Ég vil að það komi skýrt fram að þingflokksformaður Sjálfstfl. semur ekki fyrir mína hönd. Hann sviptir mig ekki málfrelsi í þessum sal og ef

eitthvert samkomulag er gert að mönnum fjarstöddum er að sjálfsögðu lágmarkskurteisi, að maður biðji ekki um meira, að þeir sem ekki hafa verið viðstaddir á þeim fundi séu þá látnir vita að slíkt samkomulag hafi verið gert og það sé borið undir þá. Ég mótmæli því harðlega að ég sé sviptur málfrelsi hér. Þetta er mál sem ég vildi tala í og hef í hyggju að gera. Hvernig geri ég það? Ég geri það með þeim hætti að ég fer fram á það hér og nú formlega að þetta mál verði til umræðu utan dagskrár á fundinum á morgun. Það er mín formlega ósk og ef hún þarf að vera skrifleg eins og einstaka sinnum hefur komið fram þá er það í lagi, ég mun gera það.
    Ég vil líka fá að koma aðeins inn á það nýmæli sem hér hefur verið tekið upp að ráðherrar skuli vera farnir að leggjast í fyrirspurnaleik til almennra þingmanna. Þá vil ég aftur koma inn á lágmarkskurteisi vegna þess að þegar við almennir þingmenn spyrjum ráðherra þá sýnum við þeim þá kurteisi að við sendum þeim spurningarnar fyrir fram þannig að menn geti aðeins áttað sig á því um hvað er verið að spyrja. En hér kemur allt annað í ljós. Hér er komin ný stefna: Ráðherrar bera fram fyrirspurnir til almennra þingmanna og sýna ekki einu sinni þá lágmarkskurteisi að kynna fyrir þeim hvað á að spyrja þá um, upp í hverju á að taka þá eins og hér var getið um áðan.
    Virðulegi forseti. Það er margt um þetta mál að segja. Það er margt um það að segja þegar skattlagningin er orðin slík að hinar stóru feitu krumlur fjmrh. eru farnar að troða sér ofan í þröngan vasa litla barnsins þá hljótum við að staldra við og ræða það mál á Alþingi.