Framtíð Kísiliðjunnar við Mývatn

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 13:16:33 (1441)


[13:16]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Meðferð þessa máls hjá hæstv. ríkisstjórn er vægast sagt öll hin sérkennilegasta og frágangur á því samkomulagi sem um þetta var gert á sínum tíma er vægast sagt skrýtinn. Þetta er þeim mun alvarlegra mál sem í hlut á afar viðkvæmt og vandasamt mál þar sem vegast á annars vegar mjög viðkvæmir atvinnuhagsmunir í einu byggðarlagi en hins vegar náttúrvernd og varðveisla og gæsla einhverrar mestu náttúrperlu landsmanna, sem reyndar er vernduð með sérstökum lögum. Það er mjög slæmt að þessi framganga ríkisstjórnarinnar skuli leiða til þess að ákvörðun sem var tekin á einum tímapunkti og átti að heita að sæmilegt samkomulag væri að skapast um frá öllum hliðum er í raun og veru eyðilögð með þessum framgangsmáta. Því auðvitað átti að ljúka málinu eins og það var kynnt og sem grundvöllur þess samkomulags sem það var þá og ganga þannig frá hnútunum að það væri gert. Annað eru brögð í tafli. Þessi framganga vekur nú upp deilur um málið á mjög viðkvæmu stigi sem hefði mátt komast hjá á tímabili þegar menn hefðu átt að vera að undirbúa þær breytingar sem í vændum væru og/eða sinna þeim rannsóknum eða kanna þá möguleika sem kynnu að vera í stöðunni. Til þess var ætlast og með því var einmitt skapað tímabil af þessari tímalengd að menn þyrftu ekki að vera með sverð hangandi yfir sér innan fárra ára sem gerði það að verkum að ekki skapaðist vinnufriður af neinu tagi hvorki fyrir verksmiðjuna og starfsfólk þar né vísindamenn sem sinntu rannsóknum á þessu sviði. Það er ekki annað hægt, hæstv. forseti, en að gagnrýna það mjög harðlega hvernig frágangur og meðferð þessa máls hefur verið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.