Framtíð Kísiliðjunnar við Mývatn

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 13:21:26 (1443)


[13:21]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Hér hafa menn talað um gagnrýnisverð vinnubrögð af hálfu ríkisstjórnarinnar og það kemur ekki fram hjá þessum hv. þm. í hverju þessi gagnrýnisverði verknaður liggur. Hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson heldur því fram að þetta sé skólabókardæmi um vond vinnubrögð. Það sem einfaldlega var um að ræða var illvígt deilumál í sveitinni og raunar víðar. Það tókst sátt um það mál sem kom glögglega fram í fréttatilkynningum frá ráðuneytunum, m.a. í þeim parti fréttatilkynningarinnar frá iðnrn. sem hv. þm. las ekki. En sem dæmi um það hvað þessi sátt var útbreidd þá vil ég, með leyfi forseta, lesa hér upp úr bréfi sem hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson fékk. Bréfið er dags. 1. sept. 1993 og er undirritað af stjórn Kísiliðjunnar. Þar segir:
    ,,Stjórn Kísiliðjunnar hf. er sátt við þessa lausn og telur hana farsæla.``
    Það hefur verið deilt á fyrrv. umhvrh. fyrir að hann hafi gert eitthvert leynisamkomulag. Það mál hefur verið skýrt ítarlega í þinginu. Menn verða að gera sér grein fyrir því að samkvæmt lögum um vernd Laxár- og Mývatnssvæðisins þá hefur Náttúruverndarráð mjög mikið vald þar. Það þarf að leita álits þess

og leyfis raunar samkvæmt álitsgerð Gauks Jörundssonar á hlutum eins og þessum. Það er ekkert óeðlilegt við það að til þess að reyna að ná þessari sátt þá hafi umhvrh., forveri minn, lofað því gagnvart Náttúruverndarráði að beita sér fyrir því að tiltekið lagafrv. yrði lagt fram á þinginu. Það var alveg skýrt af hans hálfu og hefur verið ítrekað og raunar líka af fólki í Náttúruverndarráði að þarna væri einungis um það að ræða að ráðherrann mundi beita sér fyrir þessu.
    Það hefur mikið verið deilt um þetta lagafrv. sem ég hef lagt hér tvisvar fram til kynningar. Það er alveg rétt að það sköpuðust deilur um það. Í mínum þingflokki til að mynda var Sigbjörn Gunnarsson alfarið á móti því. Það er rétt að það komi fram vegna þess að ég hef deilt um þetta mál við hæstv. landbrh. Hann var líka á móti þessu frv. En ég vil að það komi fram, virðulegi forseti, að í bréfi til mín, undirrituðu af Friðriki Sigurðssyni, var að vísu lagst gegn þessari gerð frv. en þar er því lýst yfir að Kísiliðjan geti sætt sig við að það verði lagt fram öðruvísi frv. Þeir lýsa því yfir í bréfinu að í framtíðinni mundi þurfa lagabreytingar ef það ætti að fara víðar í vatnið.