Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1993

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 14:30:36 (1451)


[14:30]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég held að það fari ekki á milli mála að um það er bærileg pólitísk samstaða hér í landinu að það þurfi að vera til stofnun sem sinnir verkefnum á sviði atvinnumála og sinnir því að hjálpa til við uppbyggingu íslensks atvinnulífs. Og við hljótum að spyrja okkur í dag þegar við erum að tengjast öðrum þjóðum nánari böndum, t.d. Evrópusambandinu með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði, hvernig við ætlum að bregðast við. Hvernig ætlum við að bregðast við því að þjóðirnar í kringum okkur veita gífurlegt fjármagn til sinna atvinnugreina í formi styrkja, lána og áhættufjár? Hvernig ætlum við að standast samkeppni þeirra?
    Ég er ekki þeirrar skoðunar að við eigum að bregðast við með þeim hætti að veita styrki og áhættufé í jafnmiklum mæli og gengur og gerist hér í kringum okkur. Það hefur t.d. komið fram að ef Ísland gengi inn í Evrópusambandið, þá tækjum við trúlega á móti 1.000--2.000 millj. í styrki inn í íslenskan sjávarútveg, en það þyrfti hins vegar að borga meira fé til þessa sambands. Með þessu væri komið á mjög miklu millifærslukerfi í íslenskum sjávarútvegi ef við yrðum aðilar að þessu sambandi. Ég held að það sé lítill vilji fyrir því í þessu landi þegar menn horfa á það raunhæfum augum og setja sig niður í það hvað þarna er verið að tala um.
    Ég er þeirrar skoðunar að í þessu ljósi þurfum við að endurskoða starfsemi Byggðastofnunar. Hv. þm. Matthías Bjarnason sagði hér áðan að það þyrfti að taka til í ákveðnum banka. Það er sjálfsagt rétt þó að það eigi nú ekki að vera bara út af því að bankinn skrifi stutt bréf. Ég tel að það sé í sjálfu sér ekki ámælisvert að skrifa stutt bréf ef þau eru skýr. En mér finnst hins vegar heldur langt gengið í að nota þrjú orð og velja þar að auki stystu orð sem hægt er að finna, en það er e.t.v. vegna niðurskurðar og aðhalds

í bankanum að þessi orð hafa verið valin og þar með verið sparaður pappír.
    Ég er þeirrar skoðunar að Byggðastofnun sé heldur ekkert heilög. Hún er tæki okkar til þess að koma áfram ákveðinni þróun og við eigum að endurskoða starfsemi hennar í ljósi aðstæðna. Það er meginverkefni í íslenskum stjórnmálum eins og er og verður á næstu árum að eyða atvinnuleysi. Atvinnuleysi nú er orðið svo mikið að við hljótum að endurskoða verkefni stofnunarinnar í því ljósi. Sex til sjö þúsund manns eru án atvinnu og menn hljóta að spyrja: Hvernig er hægt að beita þessari stofnun betur til þess að minnka atvinnuleysið? Ég er þeirrar skoðunar að stofnuninni hafi ekki tekist vel upp á síðustu árum. Það er afar lítill kraftur í þessari stofnun. Ég er ekki að gagnrýna stjórnina, en það er lítið fjármagn sem hún hefur umleikis og það vantar samvinnu við ýmsa aðra aðila í samfélaginu. Það hefur komið hér fram að það vanti meiri samvinnu við bankastofnanir en ég held að það vanti jafnframt og ekkert síður meiri samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, atvinnulífið sjálft, sveitarfélögin og aðra slíka aðila sem láta sig atvinnumál miklu skipta. Ég er því þeirrar skoðunar að það eigi að breyta þessari stofnun og gera hana að raunverulegum samstarfsvettvangi ríkisvalds, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins og það eigi að vera aðilar frá þessum samtökum í stjórn stofnunarinnar. Ég held að það sé ekki rétt að það séu eingöngu alþingismenn sem eru í stjórn stofnunarinnar. Við eigum að reyna að breikka hana. Og ég held að það hljóti jafnframt að koma til greina að sameina starfsemi Atvinnuleysistryggingasjóðs undir þennan sama hatt þannig að Byggðastofnun verði raunveruleg atvinnuþróunarstofnun sem starfi í öllum landshlutum og það heyri undir hennar hatt atvinnuráðgjafar frá öllum atvinnugreinum þannig að stofnunin styðji dyggilega við bakið á þeim.
    Ég hitti nokkra atvinnuráðgjafa út um land. Þetta er ágætis fólk, ungt fólk sem vill vel. En undantekningarlaust er um að ræða aðila sem hafa enst í starfi þetta 1--2 ár, starfa sjálfstætt og fá litla sem enga reynslu og eru síðan komnir út úr starfinu eftir tiltölulega stuttan tíma. Þetta er ekki svona meðal annarra þjóða. Það er miklu sterkari atvinnumálaráðgjöf meðal nágrannaþjóða okkar og þetta fólk hefur miklu sterkari bakhjarl.
    Það eru ýmis lítil sveitarfélög út um allt land að ráða sér atvinnuráðgjafa til skamms tíma í afmörkuð verkefni. Þetta nýtist því miður ekki nægilega vel vegna þess að það er ekki hægt að reikna með því að þetta ágæta fólk geti náð árangri þegar það er ekki hluti af stærri heild. Og mér finnst því líka nauðsynlegt að stofnun sem þessi hafi stjórnir úti á landi þannig að það séu aðilar á Norðurlandi, Austurlandi og Vestfjörðum sem hafi með stjórn stofnananna að gera í þeim landsfjórðungum þótt stofnanirnar heyri undir sameiginlega stjórn sem starfi fyrir landið allt.
    Ég held að við þurfum að viðurkenna það að Byggðastofnun er ekki það sterka tæki sem margir hafa vænst. Hún hefur ekki fengið mjög góða umræðu í þjóðfélaginu. Það eru margir sem líta svo á að þessi stofnun sé fyrst og fremst að styðja eitthvert máttlaust starf út um landsbyggðina, eitthvað sem eigi ekki að lifa, eitthvað sem eigi að deyja og þannig er litið á hér á höfuðborgarsvæðinu að þarna eigi sér stað ein fjármálaleg spilling af mörgum. Ég er ekki þeirrar skoðunar þó að auðvitað hafi Byggðastofnun lánað í ýmsa hluti sem hefði ekki átt að lána í eins og gengur og gerist. Það hefur komið fyrir. En ég tel að það sé miklu betra að taka á þessum málum undir merkjum atvinnuleysisins og það verði verkefni þessarar stofnunar að taka á atvinnuleysinu sama hvar það er í landinu. Það er jafnalvarlegt atvinnuleysi í Reykjaneskjördæmi, í Reykjavík, á Austurlandi og Vestfjörðum. Ég vil ekki gera greinarmun þar á. Allt það fólk sem verður fyrir því á erfitt og það á kröfu á því að samfélagið reyni að standa við bakið á því. Og við þurfum á því að halda að virkja þetta fólk til átaka því að við vitum að það verður ekki hægt að fjölga störfum hjá hinu opinbera á næstu árum. Það verður ekki gert nema verðmætasköpunin sé aukin og þess vegna þarf að styðja við bakið á því fólki sem vill leggja út í atvinnurekstur, vill gera eitthvað nýtt og stuðla að nýjungum. Og það eru ekki margir sem geta farið út í margvíslegar nýjungar án samvinnu og aðstoðar við sveitarfélög og ríkisvald og það er rangt þegar því er haldið fram að þetta sé eitthvað sérstakt hér á Íslandi. Það fara gífurlegir styrkir til slíkra verkefna út um alla Evrópu og miklu meira en gengur og gerist hér á Íslandi. Auðvitað eiga sér stað mistök þar eins og hér. En ef við eigum að standast samkeppni á sviði hátækni og nýjunga, þá verðum við að veita fjármagn til þess, enda er það fjármagn sem mun skila sér í framtíðinni.
    Ég tel því að stofnunin eigi að hafa það meginhlutverk að veita aðstoð og leiðbeiningar við þá sem vilja hefja sjálfstæðan atvinnurekstur. Ég tel að hún eigi líka að aðstoða einstaklinga og fyrirtæki sem lenda í erfiðri samkeppnisstöðu vegna laga, skatta og annarra opinberra fyrirmæla hér á landi til þess að fá úrlausn mála þannig að viðkomandi atvinnustarfsemi búi við eðlileg samkeppnisskilyrði. Það er þannig í mörgum tilvikum að aðilar þurfa á slíkri aðstoð að halda. Ég tel líka nauðsynlegt að slík stofnun geti lagt fram áhættufé og það eigi ekki að vera bannorð að lagt sé tímabundið hlutafé inn í fyrirtæki sem eru í nýjungum. Byggðastofnun setti hlutafé til nokkurra fyrirtækja hér á árum áður. Það má t.d. nefna merkilegt fyrirtæki eins og Fiskeldi Eyjafjarðar sem á eftir að skipta miklu máli í þróun fiskeldis hér á landi í framtíðinni. Ég vil nefna dæmi um annað fyrirtæki sem er víst með starfsemi við Vatnajökul og skiptir miklu máli í sambandi við aðdrátt ferðamanna að þessum slóðum. Þetta voru ekki miklir peningar en það skipti hins vegar sköpum við uppbyggingu þessa fyrirtækis og varð til þess að laða miklu fleiri ferðamenn inn á svæðið. Ég er alveg viss um að það litla fjármagn sem þarna var lagt fram hefur komið margfalt til baka inn í þjóðfélagið. Það má ekki vera bannorð að ríkisvaldið leggi fram áhættufé og leggi í áhættu að því

er varðar ýmsar nýjungar.
    Ég vil því hvetja til þess að það verði farið ofan í starfsemi Byggðastofnunar og reynt að gera hana að beittara tæki að því er varðar atvinnuþróun í landinu. Við framsóknarmenn viljum vinna að því. Við höfum staðið að mótun þessarar stofnunar í gegnum tíðina en við teljum að það sé kominn tími til að taka þessi mál til endurskoðunar.
    Ég vil aðeins að lokum, virðulegi forseti, nefna eitt mál sem hefur komið fram í umræðum nú síðustu daga sem er mikið byggðamál og það eru samgöngumálin. Það er afar mikilvægt að flýta samgönguframkvæmdum um allt land. Ég veit ekki betur en um það hafi verið mjög lengi pólitískt samkomulag hér á Alþingi að því fjármagni sem veitt er til vegagerðar sé skipt á grundvelli vegalaga þannig að 1 / 3 sé metinn vegna arðsemi, 1 / 3 vegna ástands vega og 1 / 3 vegna kostnaðar við vegagerðina.
    Auðvitað má deila um þetta pólitíska samkomulag sem hér hefur gilt svo lengi sem ég man sem er að vísu ekki nema um 20 ár. En það kemur mér mjög á óvart að nú skuli hafa verið ákveðið að deila vegafé út í hlutfalli við fólksfjölda. Ég held að það sé ekki góður mælikvarði og ég minni á það að þetta hlutfall sem hefur verið í gangi í gegnum árin hefur virkað þannig að ýmis landsvæði hafa verið alllangt neðan við hlutfall sitt um nokkurra ára skeið í þeirri vissu að það ykist síðar.
    Ég vil óska eftir því að menn rjúfi ekki slíkt pólitískt samkomulag með einu pennastriki heldur sé það rætt hér á Alþingi með eðlilegum hætti vegna þeirra ástæðna að þessi mál fara ekki eingöngu eftir pólitískum skoðunum heldur líka eru þau stórt atriði í að halda eðlilegu jafnvægi og góðum friði milli svæðanna í landinu, milli bæjanna í landinu, milli dreifbýlis og þéttbýlis. Það er öllum mikilvægt að svo verði, hvort sem menn búa í höfuðborg eða sveit. Þetta kemur nokkuð undarlega fram finnst mér einmitt þessa daga þegar því er haldið fram að eitt það mikilvægasta sem þurfi að gera í landinu sé að jafna atkvæðisréttinn en þá er sagt um leið að menn verði svo að jafna annað með öðrum hætti. En mér finnst að þessar setningar, sem hafa komið fram frá hæstv. ríkisstjórn að því er varðar vegafé, séu með sama hætti að nú eigi að dreifa vegafénu í framtíðinni í hlutfalli við fólksfjölda. Ég held að þetta sé sagt í nokkurri fljótfærni og bið um það að menn ræði þetta betur áður en ákvarðanir eru teknar.